143. löggjafarþing — 101. fundur,  30. apr. 2014.

opinber fjármál.

508. mál
[18:34]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P) (andsvar):

Frú forseti. Það er bara spurningin sem ég nefndi áðan um fjármálastefnu — hérna segir, með leyfi forseta:

„Ríkisstjórn skal, eftir að hún er mynduð, móta fjármálastefnu sem ráðherra leggur fram á Alþingi í formi tillögu til þingsályktunar …“

Þeir sem eiga að meta hvort fjármálastefnan standist þessi lög er hópur sem er nefndur fjármálaráð. Það kemur í 13. gr., með leyfi forseta:

„Ráðherra skipar þrjá menn í fjármálaráð til þriggja ára í senn. Skulu tveir skipaðir samkvæmt tilnefningu Alþingis og einn samkvæmt tilnefningu forsætisráðherra, og skal sá jafnframt vera formaður.“

Markmið eða hlutverk fjármálaráðsins er að leggja mat á hvort fjármálastefna og fjármálaáætlun fylgi þeim grunngildum sem talin eru upp.

Það sem ég er að velta fyrir mér er stefnan og áætlunin sem er á hendi ríkisstjórnarinnar en þeir sem eiga að meta hvort hún uppfylli lögin eru einn aðili skipaður af ráðherra sjálfum og hann er formaður og svo tveir tilnefndir af þinginu og er nokkuð ljóst að annar þeirra verður sá sem stjórnarmeirihlutinn skipar og ríkisstjórnarflokkarnir. Það er svolítið óeðlilegt að ríkisstjórnin hafi þá tvo í þessu ráði sem meta hvort hún uppfylli skilyrði laganna. Við mundum aldrei sætta okkur við svona fyrirkomulag þegar kæmi að dómstólum eða einhverju slíku. Það er mjög óeðlilegt fyrirkomulag að aðili A eigi að meta hvort aðili B fari eftir lögunum, en hann er skipaður af aðila B. Ég vil spyrja ráðherra út í þetta.