143. löggjafarþing — 101. fundur,  30. apr. 2014.

opinber fjármál.

508. mál
[18:41]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Frú forseti. Varðandi freistnivandann er áfram gengið út frá því að stofnanir geti tekið með sér ákveðið hlutfall af fjárheimildum líðandi árs yfir á næsta ár til þess að ekki sé freisting til staðar til þess að ráðstafa allri fjárheimildinni á yfirstandandi ári. Það er ekki grundvallarbreyting á þessu. Það má síðan alltaf ræða það hvar mörkin eigi að liggja, hversu hátt hlutfall heimildar yfirstandandi árs sé eðlilegt að flytjist milli ára, en í grundvallaratriðum er gengið út frá því að ráðuneytin fylgist með því að gildar ástæður séu til þess að láta fjárheimildir flytjast milli ára.

Varðandi hitt atriðið skulum við hafa það í huga að jafnvel þótt okkur tækist að standa þannig að skipan fjármálaráðsins að með öllum ráðum hefði verið lágmörkuð sú áhætta sem þingmaðurinn gerir að umtalsefni, þ.e. að aðilar sem þar taki sæti eða verði skipaðir séu með einhverjum hætti vilhallir stjórnvöldum á hverjum tíma, þá kemur það ekki í veg fyrir að ólíkar skoðanir kunni að vera í samfélaginu, m.a. á pólitískum forsendum, á því hvort ríkisstjórn þess tíma sé á réttri leið.

Tökum sem dæmi hvort ríkisfjármálin séu til þess fallin, eins og hefur verið rætt undanfarna daga í þinginu, að auka jöfnuð og hvort stefnan sé til þess fallin og nái þeim markmiðum eða hvort önnur markmið eigi að vera æðri í ríkisfjármálastefnunni. Um þetta verður endalaust tekist á. Hagfræðingar munu áfram skiptast í a.m.k. tvö ef ekki þrjú (Forseti hringir.) horn þegar kemur að því að hafa skoðun á því hvort ríkisfjármálastefnan sé líkleg til að ná eftirsóknarverðum efnahagslegum áhrifum. Ég tel að þetta sé ágætt fyrirkomulag og á endanum (Forseti hringir.) verður það í höndum þingsins að klára skipunina með þeim hætti að trúverðugleikinn sé varðveittur.