143. löggjafarþing — 102. fundur,  2. maí 2014.

störf þingsins.

[10:37]
Horfa

Willum Þór Þórsson (F):

Hæstv. forseti. Hv. efnahags- og viðskiptanefnd hefur nú til umfjöllunar frumvörpin tvö sem innihalda aðgerðir til að ná niður skuldum íslenskra heimila, annars vegar séreignarsparnaðarfrumvarpið og hins vegar skuldaleiðréttingarfrumvarpið.

Tíminn er naumur en hann er nægur. Auðvitað er mikilvægt að ríkisstjórnin klári sitt stærsta kosningamál og það sem lagt var upp með í stjórnarsáttmálanum. Það er þó mikilvægast að taka til baka þann skell sem kom á húsnæðisskuldir íslenskra heimila í kjölfar þess að fjármálakerfið hrundi hér haustið 2008. Þegar leiðréttingin er gengin í gegn og íslensk stjórnvöld taka höndum saman með stjórnvöldum og beina skattfrjálsum séreignarsparnaði sínum til niðurgreiðslu höfuðstóls þá blasir við að afnema þarf verðtryggingu almennt af lánum, nýjum sem gömlum. Þrátt fyrir að sá hluti lána sem færður verður nú niður sé varinn verðtryggingunni, ef svo má að orði komast, verður að koma í veg fyrir að annar eins skellur geti komið á húsnæðisskuldir. Það mun jafnframt auka stöðugleika fjármálakerfisins og styrkja peningamálastefnu Seðlabankans þar sem stýritæki vaxta verður skilvirkara í þeirri viðleitni að ná verðbólgumarkmiðum.

Virðulegi forseti. Verðtryggingin blekkir skuldarann og það er ólíðandi að setja fólk í þann skuldaklafa sem fylgir því að geta ekki séð fyrir þann kostnað sem fylgir því að taka lán. Slíkt ástand mun viðhalda óstöðugleika og þær aðstæður að íslensk heimili verði of skuldsett munu koma upp aftur ef við fylgjum þessum aðgerðum ekki eftir til fulls. Ég vil því nota tækifærið hér og árétta og hvetja stjórnvöld til að fylgja þessum aðgerðum eftir til fulls og afnema verðtryggingu af neytendalánum, nýjum og gömlum.