143. löggjafarþing — 102. fundur,  2. maí 2014.

störf þingsins.

[11:00]
Horfa

Sigrún Magnúsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég fagna því hversu margir hv. þingmenn eru jákvæðir í þessari umræðu í dag og tel það vera út af því að þjóðfélagið er á réttri leið og jákvæðni að verða ríkjandi. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)

Ég kem hér fyrst og fremst upp til að vekja athygli á jákvæðri nálgun kennara í baráttu sinni núna, að þeir hafa ákveðið að vekja athygli á hinu dýrmæta starfi kennarans og hverju það fær áorkað að vera með jákvæðni að vopni. Af því held ég að við og fleiri stéttir mættum læra. Við sem hér sitjum og víðar munum eflaust öll eftir góðum kennara. Við munum slíkan mann eða konu alla ævi.

Mér finnst þetta til fyrirmyndar og vildi vekja sérstaklega athygli á þessu átaki Háskóla Íslands. Það er ekki síst út af því að í Morgunblaðinu eru hlið við hlið greinar um þetta átak annars vegar og hins vegar um hegðunarvanda skólabarna, hvað það er orðið erfitt í skólunum.

Hvers vegna skyldi það vera? Ég held að það sé út af almennu agaleysi í samfélaginu og það er ekki síður okkur foreldrum að kenna, við berum þar öll ábyrgð. Þetta kristallast í skólastofunni og veldur áhyggjum. Við skulum temja okkur hér inni sem annars staðar að vera með jákvæðnina að vopni og hvetja, hvort sem það eru kennarar eða börn, til jákvæðni og þá held ég að við verðum öll betri manneskjur og þjóðfélagið á réttari leið.