143. löggjafarþing — 102. fundur,  2. maí 2014.

framkvæmdarvald og stjórnsýsla ríkisins í héraði.

250. mál
[12:11]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Hér erum við hv. þingmaður fullkomlega ósammála. Það sem kann að eiga við í 5 til 8 milljón manna ríkjum á einfaldlega ekki við í 0,3 milljón manna landi. Við erum ekki nema 300 þúsund. Það er engin ástæða til að vera með tvö stór lögregluembætti í sama bænum, Reykjavík, ríkislögreglustjóra og lögreglustjórann á höfuðborgarsvæðinu. Það á einfaldlega að fela lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu þau verkefni sem ríkislögreglustjóri hefur með höndum og koma stjórnsýsluþættinum annars staðar fyrir.

Ef menn skoða embættið í Noregi er það miklu, miklu minna en það embætti sem hér er að öllu umfangi og hefur alls ekki þau miklu verkefni sem menn hafa verið að setja til ríkislögreglustjóraembættisins hér, þannig að þar er ólíku saman að jafna.

Ég vil líka leggja áherslu á að það getur verið mikilvægt fyrir framkvæmdarvaldið í héraði að flytja þangað fleiri verkefni en sýslumannsembættin eru með í þessu skipulagi og miða að því að borgararnir geti sótt sem mest af þjónustu ríkisins á einn stað í sínu héraði. Það væri auðvitað mikilvægt til að styrkja þá þróun að sveitarfélögum fækkaði frá því sem nú er, þau eru því miður enn þá of mörg og of smá.

Ég held líka að eðlilegt sé að spyrja formann nefndarinnar um Lögregluskólann. Nú er ekki langt síðan við fluttum landbúnaðarskólana undir menntamálaráðuneytið. Er ekki tímabært að lögreglumenntunin sé með sama hætti flutt undan fagráðuneytinu og málaflokknum og sé bara á hendi menntamálaráðuneytisins sem með það fari? Ég skil það þannig að það fyrirkomulag sé ekki á málunum eins og þeim er nú háttað.

Kannski síðast um þetta með Vestmannaeyjar, af hverju er það áfram sjálfstætt umdæmi út frá samgöngusjónarmiðum? Höfum við ekki verið að efla samgöngur við Vestmannaeyjar? Og ættu þá ekki sömu (Forseti hringir.) samgöngurök við um að hafa sjálfstæð embætti á Hornafirði (Forseti hringir.) eða suðurfjörðum Vestfjarða eða á norðausturhorninu?