143. löggjafarþing — 102. fundur,  2. maí 2014.

framkvæmdarvald og stjórnsýsla ríkisins í héraði.

250. mál
[14:23]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna.

Mig langar að staldra aðeins við þá umfjöllun sem hann vék að hér um framtíðarskipulag Lögregluskóla ríkisins. Eins og fram kemur ágætlega í nefndaráliti var það töluvert rætt í nefndinni og var byggt á skýrslu þáverandi dóms- og kirkjumálaráðherra 2007. Nefndin skilaði tillögum árið 2008 þar sem fram kom að ein af kröfum Landssambands lögreglumanna var að færa lögregluskólann á háskólastig. Þær hugmyndir hafa komið fram, m.a. í tillögum hagræðingarhóps, að Lögregluskóli ríkisins verði sameinaður ríkislögreglustjóra, þannig að ýmis sjónarmið hafa verið uppi, m.a. að menntunin sé hluti af embætti ríkislögreglustjóra annars vegar og hins vegar að menntunin þróist innan núverandi skólakerfis, ef svo má að orði komast, á háskólastiginu. Við tókum ekki endanlega afstöðu til þess í nefndinni hvaða fyrirkomulag væri best og hvernig best væri að koma þessu fyrir til lengri framtíðar, heldur lögðum við til í bráðabirgðaákvæði, eins og hér hefur komið fram, að ráðherra yrði falið í samráði við hlutaðeigandi aðila að setja á laggirnar sérstakan starfshóp til að skila greinargerð til ráðherra ekki síðar en 1. ágúst 2014.

Mig langar að spyrja hv. þingmann hvað hann telji farsælast fyrir lögreglumenntun í landinu. Hvernig telur hann farsælast að koma henni fyrir inn í framtíðina? Skrefið sem við erum sannarlega að stíga hér með bráðabirgðaákvæðinu í þessu frumvarpi er bara fyrsta skref, það er í raun og veru bara fyrsta skref í þá átt að nú skuli tekin afstaða. Mig langar til þess að spyrja hv. þingmann, af því að hann hefur áhuga og þekkingu á menntamálum, hvernig hann telji lögreglumenntun í landinu best fyrir komið.