143. löggjafarþing — 102. fundur,  2. maí 2014.

framkvæmdarvald og stjórnsýsla ríkisins í héraði.

250. mál
[17:02]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Varðandi það hvernig staðið er að sameiningu. Vegna athugasemda eins og þarna komu fram, m.a. hjá lögreglumönnum og fleirum, og áhyggna af því hvernig að þessu hefur verið staðið og mun verða staðið að þessu, þá er sérstakur kafli í nefndarálitinu sem heitir Sameining ríkisstofnana. Þar er einmitt vísað sérstaklega í að gefnar voru út reglur frá fjármálaráðuneytinu, sem jafnan vilja gleymast, um það hvernig standa skuli að sameiningu og breytingum á embættum eins og þarna er verið að gera. Þar er lögð áhersla á vandaðan undirbúning. Ríkisendurskoðun hefur ítrekað vitnað í þessar vinnureglur þar sem annars vegar er verið að skoða hversu skýr markmiðin voru þegar menn lögðu af stað og hverju menn ætluðu að ná fram. Síðan er mat á því hvernig það tókst og með hvaða hætti.

Eitt af því sem er jákvætt við aðdragandann að þessu, af því að þetta hefur átt sér langan aðdraganda, er að þarna var búið að vinna þverpólitíska skýrslu um það hver löggæsluþörfin væri í landinu. Ég held að það hafi hjálpað mjög mikið að menn hafi nálgast forsendurnar saman og á þeim grundvelli. Það verður að segja hæstv. ríkisstjórn það til hróss að hún bætti við starfsmönnum í samræmi við þá skýrslu sem unnin var og skilað var til ráðherra um mitt ár 2012. Ríkisstjórnin var að reyna að vinna samkvæmt ákveðnu skipulagi.

Ef menn nálgast þetta út frá þessum tveimur þáttum og gæta þess, eins og fram kom í nefndinni, að við erum ekki að tala um að fara að segja upp fólki, nema það sé óhjákvæmilegt, við erum að tala um breytingar vegna þess að verið er að skipta um t.d. titillinn á sýslumanni, en að menn eigi aðgang að störfum í framhaldinu.

Ég held að það skipti allt mjög miklu máli. Ég tel að það sé sjálfgefið að Ríkisendurskoðun fylgist með þessu máli eins og hún hefur gert við sameiningar almennt, hún hefur gefið út ágætar skýrslur m.a. um sameiningu ráðuneyta (Forseti hringir.) og lagt mat á það hvernig staðið var að málum og hvort árangurinn hafi verið í samræmi við væntingar.