143. löggjafarþing — 104. fundur,  6. maí 2014.

vátryggingastarfsemi.

584. mál
[14:30]
Horfa

Frsm. efh.- og viðskn. (Frosti Sigurjónsson) (F) (andsvar):

Ég þakka hv. þingmanni fyrir spurninguna um hvers vegna þurfi að hraða málinu. Það er góð spurning. Fjármálaeftirlitið kom til fundar við efnahags- og viðskiptanefnd og útskýrði og svaraði spurningum um þau mál. Þarna er á ferðinni starfsemi tryggingafélags sem lýtur íslenskum lögum og er skráð á Íslandi en starfar aðallega í Bretlandi og hefur misst starfsleyfi sitt. Það er búið að skipa því stjórn (Gripið fram í: Skilastjórn.) eða skilastjórn eins og það er notað í þessum lögum, það er rétta orðið um þetta. Skilastjórnin sér sér ekki fært að reka félagið áfram nema þessar breytingar séu gerðar, hún sér sér skylt að setja það í þrot nema opnað sé á þennan möguleika og ef það er sett í þrot mun það valda þeim sem eiga hagsmuna að gæta meira tjóni. Það er mat Fjármálaeftirlitsins og okkar eftir þessa kynningu að þetta sé mikilvægt og brýnt mál til þess að valda ekki óþörfu tjóni. Þar sem þingmaðurinn nefndi að innleiðing Evróputilskipunar væri bætt með þessu viljum við líka afstýra því að slíkt tjón geti með nokkrum mögulegum hætti fallið á ríkissjóð vegna ónógrar innleiðingar, þannig að við teljum að málið sé að öllu leyti brýnt og þoli ekki bið.

Varðandi það hvort tilefni sé til þess að setja sambærilegan frest í lög um slit fjármálafyrirtækja þá er alla vega sá sem hér stendur á því að það þurfi að setja einhver tímamörk og jafnvel þótt síðan sé hægt að framlengja þau með einhverjum gefnum, góðum ástæðum þá sé ekki gott að það sé enginn endapunktur á slitameðferð. Fyrirtæki sem eru í slitameðferð hugsa ekki til framhalds, þau meðhöndla viðskiptavini sína á annan hátt en önnur fyrirtæki (Forseti hringir.) og það þarf að vera einhver endapunktur í augsýn.