143. löggjafarþing — 106. fundur,  6. maí 2014.

gjaldskrárlækkanir o.fl.

315. mál
[15:44]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta efh.- og viðskn. (Árni Páll Árnason) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti 1. minni hluta efnahags- og viðskiptanefndar sem ég skipa. Það mál sem hér er til meðferðar er mjög sérstaks eðlis og óhjákvæmilegt að hafa um það nokkur orð. Það er sjaldgæft að maður telji sig knúinn til þess að gagnrýna jafn harkalega aðgerð sem maður er efnislega sammála í grunninn eins og raun ber vitni í þessu máli. Hér er ríkisstjórnin að efna seint og um síðir í mun minna mæli en loforð hennar upphaflega hljóðaði um fyrirheit sem hún gaf íslensku launafólki um — ekki að lækka gjöld, ekki að halda gjaldskrám hins opinbera óbreyttum, nei — að lækka hluta af þeim gjöldum sem ríkisstjórnin sjálf kaus að hækka við fjárlagagerð fyrir síðasta ár.

Í umræðum um fjárlögin hér í upphafi vetrar ræddum við þetta ítrekað. Ég beindi ítrekað fyrirspurnum að hæstv. fjármálaráðherra og hæstv. forsætisráðherra, hvort ekki væri eðlilegt að fylgt væri fordæmi sveitarfélaga sem höfðu gengið á undan með góðu fordæmi og tilkynnt að þau væru tilbúin að frysta gjaldskrár til að halda aftur af verðbólguþróuninni, taka þátt í átaki, þjóðarsamstöðu, um að vinna gegn þeim verðbólguþrýstingi sem allir sáu að var í kortunum.

Vert er að minnast þess að það var borgarstjórn Reykjavíkur sem markaði fyrst þessa stefnu og lagði fram ítarlegan rökstuðning fyrir því að það yrði í reynd ávinningur borgarinnar að halda aftur af verðbólgu, vegna þess að tjón borgarinnar af verðbólgu yrði svo mikið að þó svo þetta fæli í sér fórnir á pappírnum, að halda aftur af gjaldskrárhækkununum, þá fæli það í reynd í sér ávinning fyrir borgina. Það er auðvelt að færa sömu rök fyrir ríkið, þegar ríkið er annars vegar. Samt sem áður ákvað ríkisstjórnin að taka ekki þátt í samstöðu aðila vinnumarkaðarins og sveitarfélaganna um að halda aftur af verðbólgunni með því að hemja sig í gjaldskrárhækkunum.

Það sem síðan gerðist er að ríkisstjórnin var knúin til afturhvarfs að hluta með gerð kjarasamninga sem tókust á vetrarsólstöðum 21. desember. Ríkisstjórnin þurfi þá að gefa yfirlýsingu um aðkomu sína að gerð kjarasamninga til að þeir tækjust. Þá tókst annars vegar, það er vert að rifja þessa hörmungarsögu upp, að hemja ríkisstjórnina í skattalækkunaráformum á þá allra best stæðu í samfélaginu sem hún lagði höfuðáherslu á, en þó ekki þannig að skattalækkanir ríkisstjórnarinnar dugðu á endanum best þeim 10% þjóðarinnar sem allra mest hafa á milli handanna og ríkisstjórnin brást ekki við tillögum aðila vinnumarkaðarins og kröfum verkalýðshreyfingarinnar um að þeir sem eru með undir 250 þús. kr. fengju eitthvað í sinn hlut af skattalækkunum.

Í þeirri yfirlýsingu var kveðið á um að horfið yrði frá sem næmi 1% af þeirri hækkun sem þegar hafði verið ákveðin í fjárlögum. Blekið var síðan varla þornað á kjarasamningunum þegar fréttir bárust af því, í upphafi janúarmánaðar, að komugjöld í heilsugæslustöðvar hefðu hækkað, þau hæstu yfir 20%, almennt á bilinu 13 til 21%. Kröfum verkalýðshreyfingarinnar um endurskoðun á þeim hækkunum var ekki mætt að neinu leyti af hálfu ríkisstjórnarinnar.

Þegar nokkur verkalýðsfélög höfðu fellt kjarasamningana seinni hluta janúarmánaðar er frumvarp loks kynnt í ríkisstjórn og þá kemur að hinum dapurlega þætti þessarar sögu. Eitt er nú það að ríkisstjórnin skuli ekki hafa viljað taka þátt í samstöðu aðila vinnumarkaðarins og sveitarfélaganna gegn verðbólgu. Hitt er að hún efni ekki einu sinni þó hún lofaði.

Frumvarp er kynnt í ríkisstjórn seinni hluta janúarmánaðar. Það er ekki lagt fram hér á Alþingi fyrr en 13. febrúar. Ítrekuð boð voru lögð fram af hendi stjórnarandstöðunnar um að setja þetta mál í forgang eftir að það var lagt fram. Aftur og aftur á fundum formanna flokkanna og héðan úr ræðustól Alþingis buðum við að þetta mál yrði með okkar samþykki sett fremst á mælendaskrá. Nei, einstrengingsháttur ríkisstjórnarinnar og sá ásetningur hennar að spilla samstarfi við aðila vinnumarkaðarins og efna ekki skyldur sínar í þessu efni var slíkur að ekki er mælt fyrir þessu máli fyrr en 18. mars, rúmum mánuði eftir að það er lagt fram á Alþingi.

Þá tekur við annar furðulegur þáttur þessa máls; málið er ekki afgreitt úr efnahags- og viðskiptanefnd fyrr en nærri einum og hálfum mánuði síðar þótt enginn efnislegur ágreiningur hafi komið fram um málið á nefndarfundum. Við fulltrúar stjórnarandstöðunnar í nefndinni vorum vissulega efins um það hvers vegna menn til dæmis skáru niður í þessum gjöldum. Svör fjármálaráðuneytisins á nefndarfundum voru skýr: Þetta eru gjöldin sem hafa áhrif á vísitöluna. Þess vegna er ákveðið að lækka eldsneytisgjöld og gjöld á áfengi og tóbak eins og sjá má í frumvarpi ríkisstjórnarinnar. Það eru ekki nauðsynlega þau gjöld sem vega þyngst í framfærslubyrði heimilanna. Það er ekki nauðsynlega þannig sem best er mætt því fyrirheiti að halda aftur af verðbólguþróuninni.

Það hefði mátt hugsa sér að svigrúmið hefði verið fengið með því að lækka aftur, draga til baka hækkunina á komugjöldum á heilbrigðisstofnanir. Nei, það var ekki gert, en við í þingnefndinni gerðum ekki athugasemdir við að málið yrði afgreitt út með þessum hætti. Samt tók það allan þennan tíma í þingnefndinni og er þar af leiðandi augljóslega ekki forgangsmál ríkisstjórnarinnar.

Það kemur svo hér núna til 2. umr. 6. maí. Ég held að það séu vandfundin sambærileg dæmi um annaðhvort vanvirðingu ríkisstjórnar á samningum og fyrirheitum sem hún gefur aðilum vinnumarkaðarins samhliða gerð kjarasamninga, eða áhugaleysi ríkisstjórnarinnar á að mæta hagsmunum launafólks og gera sitt til að halda aftur af verðbólgu.

Í breytingartillögu bítur svo stjórnarmeirihlutinn höfuðið af skömminni með því að gera ráð fyrir að gildistökunni verði frestað. Ef þessi gjaldalækkun á bara að fela í sér 1% lækkun þeirra gjalda sem hér um ræðir í hálft ár en ekki eitt ár eins og hið upphaflega fyrirheit ríkisstjórnarinnar hljóðar upp á, er auðvitað um að ræða 50% vanefnd. Það er ekki verið að efna fyrirheitið sem gefið var 21. desember, það var alveg skýrt. Það hefði verið eðlilegt að ríkisstjórnin hefði sýnt þá viðleitni að bæta í lækkunina, lækka þá um 2% á seinni hluta ársins, því að það hefði væntanlega komið út með sama hætti og hið upphaflega fyrirheit hljóðaði á um. Nei, ríkisstjórnin hefur með öðrum hætti ekki efnt fyrirheit gagnvart aðilum vinnumarkaðarins og hún hefur tryggt sér það að hún nær að spara sér þær peningalegu fórnir sem ríkið ætlaði að leggja inn í þennan pakka til að halda aftur af verðbólgunni. Hún er að komast hjá því að efna það fyrirheit sem hún gaf sjálf. Það er auðvitað það sem stingur sérstaklega í augun að launafólk er þar með hlunnfarið um lækkun þeirra gjalda sem launafólk er að greiða vegna ákvarðana ríkisstjórnarinnar um hækkun gjalda hér rétt fyrir áramót.

Svo segja menn: Þetta bara tekur langan tíma. Það hafa reyndar engar skýringar komið á þessum óskaplega heybrókargangi hjá stjórnarmeirihlutanum. Hvers vegna hékk málið í ríkisstjórn svona lengi? Hvers vegna var ekki mælt fyrir því hér í rúman mánuð? Af hverju var ekki lögð áhersla á að afgreiða það út á einum degi eða tveimur dögum? Hér er einfaldlega um að ræða langa sögu slóðaskapar sem verður ekki túlkuð með öðrum hætti en þeim að það sé einbeittur vilji ríkisstjórnarinnar að efna í eins litlu og mögulegt er það fyrirheit að finna leiðir til þess að efna í orði fyrirheitin sem gefin voru aðilum vinnumarkaðarins en ekki í reynd.

Þegar við sjáum síðan hvernig ríkisstjórnin treystir sér nú samt til að ganga fram þegar kemur að lagasetningu sem varðar samskipti á vinnumarkaði eins og við sáum hér nýverið þegar sett voru lög vegna yfirvinnubanns undirmanna á Herjólfi á einum degi. Þá var engum vanda undirorpið að finna tíma á dagskrá þingsins og vandalaust að keyra það mál í gegn á einum degi. Af hverju var þetta mál ekki með sama hætti sett í forgang af hálfu ríkisstjórnarinnar og samið um hraðan framgang þess hér í þingi? Af hverju lætur ríkisstjórnin það liggja aftast á forgangslistanum? Hún hirðir ekki um að mæla fyrir því þegar það loksins kemur fram; að það skuli vera lagt fram hér í þinginu einum og hálfum mánuði eftir upphaf ársins, næstum því tveimur mánuðum eftir að loforð eru gefin héðan úr þessum ræðustól af hálfu fjármálaráðherra um að þessar lækkanir munu koma til framkvæmda og síðan ekki hirt um að mæla fyrir málinu í meira en mánuð og ekki þrýst á um að hraða afgreiðslu þess út úr nefnd. Þetta er mikil hörmungarsaga. Það er áhyggjuefni að sjá það alvöruleysi sem einkennir samskipti ríkisstjórnarinnar og aðila vinnumarkaðarins. Það er samfélaginu ekki til góðs að hafa þann hátt á.

Ríkisstjórnin hefur líka í öðru máli nú nýverið, í tillögunni um að draga til baka aðildarumsókn að Evrópusambandinu, kosið að efna til fullkomins ágreinings við atvinnulífið í landinu og verkalýðshreyfingu, lokað leiðum að óþörfu og nú bætir hún um betur og kemur hér með þannig útfærslu á fyrirheitum vegna aðkomu ríkisins að gerð kjarasamninga að það er engin leið að kalla það efndir. Bara til upprifjunar. Við gengum margsinnis eftir því við forustumenn ríkisstjórnarinnar hér fyrir áramót hvort ekki væri ástæða til að ríkisstjórnin tæki með jafn miklum myndarskap í þessum málum og sveitarfélög undir forustu Reykjavíkurborgar höfðu kosið að gera. Nei, ríkisstjórnin var ákveðin í að verða eftirbátur, draga ekki vagninn í baráttunni gegn verðbólgu, draga ekki vagninn í að tryggja kjarabætur fyrir þá sem minnst hafa milli handanna. Hún hafnaði ítrekuðum tillögum okkar í stjórnarandstöðunni og aðila vinnumarkaðarins um að fólk sem er með undir 250 þús. kr. í mánaðarlaun fengi í sinn hlut eitthvað af skattalækkun. Já, það fólk átti ekki fá neinn hlut í aðgerðum ríkisins á skattahliðinni. Hvað var okkur þá sagt? Gjaldalækkanirnar koma auðvitað þessu fólki til góða. Það var veitt fyrirheit um gjaldalækkun upp á 1% fyrir allt árið. Það er verið að efna það fyrirheit með gjaldalækkun upp á 1% fyrir hálft ár. Menn með sómatilfinningu hefðu séð að sér og ákveðið að hækka prósentuna upp í 2% til þess að skila launafólki þó alla vega á seinni helmingi ársins þeim kjarabótum sem lofað var að kæmu til allt árið.

Það er svo auðvitað athugunarefni út af fyrir sig að menn hafi kosið vegna áhrifa á vísitöluna að velja bara þessar gjaldskrárhækkanir, því að þær hafa bein vísitöluáhrif, en það eru margir ókostir við þessar gjaldskrárhækkanir umfram aðrar. Í fyrsta lagi voru gjaldskrárhækkanirnar í heilsugæslunni miklu meiri, eða allt frá 13% upp í 21%. Í annan stað leggjast þær hlutfallslega þyngra á þá sem hafa lítið milli handanna og þurfa að greiða eftir þeirri gjaldskrá og undir hælinn lagt hvort fólk með undir 250 þús. kr. á mánuði hefur jafn mikið fé aflögu og aðrir þjóðfélagsborgarar til að kaupa eldsneyti, áfengi eða tóbak. Þess vegna er innbyggð ákveðin skekkja í því að leggja bara til lækkunina á þessum þætti gjaldskránna en ekki öðrum. En, gott og vel, hafandi tekið þá ákvörðun eru það snautlegar efndir að tryggja ekki að 1% lækkunin sem var loforðið sem gefið var 21. desember 2013 sé efnt allt árið eða ígildi þess með því að hafa lækkunina 2% á seinni hluta ársins.

Virðulegi forseti. Eins og fram kemur í minnihlutaáliti mínu styðjum við málið efnislega en gerum alvarlegar athugasemdir við framgöngu ríkisstjórnarmeirihlutans við meðferð málsins. Þessi framganga ríkisstjórnarinnar gagnvart kjarasamningum og eðlilegum samskiptum aðila vinnumarkaðarins er auðvitað ekki til þess fallin að auka traust á ríkisvaldinu þegar kemur að gerð kjarasamninga á komandi hausti sem við höfum mörg bundið vonir við að gætu orðið grunnur að efnahagslegum stöðugleika fram á veginn. Ríkisstjórnin er á sama tíma að setja í uppnám samskipti við aðila vinnumarkaðarins út af aðildarumsókninni sem skiptir máli vegna gjaldmiðilsstefnunnar, til þess að hægt sé að tryggja fjölbreyttari valkosti en sveiflukenndan gjaldmiðil. Það hvernig efndum er hér hagað dregur úr trausti á ríkisvaldinu, trú á því að núverandi ríkisstjórn hafi nokkurn vilja til þess að mæta aðilum vinnumarkaðarins.