143. löggjafarþing — 106. fundur,  6. maí 2014.

gjaldskrárlækkanir o.fl.

315. mál
[16:18]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta efh.- og viðskn. (Árni Páll Árnason) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er erfitt að átta sig á þessu til fulls og auðvitað allt miklum vafa undirorpið en það er ljóst að það má þó ráða af umsögn fjárlagaskrifstofunnar að tekjutapið vegna lækkunar eldsneytisgjaldanna í heild verður 135 millj. á seinni hluta ársins og áfengis- og tóbaksgjaldanna 95 millj. á seinni hluta ársins ef við helmingum ársgrundvallartölurnar sem þarna eru lagðar fram. Þetta er því afskaplega snautlegt framlag miðað við það sem gefið var fyrirheit um í upphafi og miðað við gjaldahækkanir sem í heild voru samþykktar hér upp á 1.400 milljónir samhliða gerð fjárlaga. Ég þykist muna það rétt að það hafi verið heildarkostnaðurinn. Við kostnaðargreindum það því að við gerðum ráð fyrir að gjöldin yrðu fryst. Það er verið að skila hér til baka agnarlitlum hluta, það er verið að skila til baka, eins og ég nefndi áðan, 230 milljónum af heildargjaldahækkun upp á 1.400. Það er auðvitað ekki í samræmi við að ríkisstjórnin leggi sitt af mörkum til að ná aftur tökum á verðbólgunni. Alveg eins og hv. þingmaður nefnir réttilega er engin trygging fyrir því að svona lítil lækkun á eldsneytisgjöld skili sér í verðlagi til neytenda. Þvert á móti má gera ráð fyrir því að það sé mjög auðvelt fyrir söluaðila að nýta sér hana vegna þess að það er auðvelt að lækka í einn dag og svo er næsta verðbreytingatilefni notað til að hækka og þessi lækkun skilar sér aldrei. Þess vegna er þetta óskynsamleg aðgerð í útfærslu og hún er mjög snautlegt framlag til verðstöðugleika í landinu.