143. löggjafarþing — 106. fundur,  6. maí 2014.

gjaldskrárlækkanir o.fl.

315. mál
[16:58]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta efh.- og viðskn. (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég vísa aftur til þess sem ég sagði um olíugjaldið og kannski alveg sérstaklega þungaskattinn. Það er að vísu vandasamt að því leyti til að það liggur auðvitað alveg fyrir að þau gjöld, þungaskatturinn, ættu í raun að vera mun hærri ef við værum að leggja þau á miðað við t.d. slit á vegum. En það hafa menn valið að gera ekki vegna þess að það fer svo mikill hluti í flutninga hér í landinu fram á landi og það er mjög tilfinnanlegur útgjaldaliður, einkum fyrir hinar fjarlægari byggðir og jafnvel þótt síðasta ríkisstjórn hafi komið á flutningsjöfnun, sem er til mikilla bóta og fær víst að halda áfram þó að óvissa væri um það í byrjun hjá núverandi ríkisstjórn. Það væru alveg efni til þess ef menn eru að grípa til einhverra sértækra breytinga á gjaldskrám af þessu tagi að horfa til slíkra liða.

Það er alveg rétt munað hjá hv. þingmanni að það var mikið upphlaup hér, ég held á árinu 2011, þegar heimsmarkaðsverð á bensíni og olíum var hækkandi og leiddi auðvitað af sér hærra útsöluverð hér, að þá ætti ríkið að afsala sér tekjum í formi verulegrar lækkunar á sköttum til þess að draga úr þeim hækkunum. Ég held að það sé líka rétt munað að þingmenn Sjálfstæðisflokksins fluttu beinlínis um það frumvarp eða voru með þá afstöðu að það ætti að lækka bensíngjaldið, sennilega um 20–25 kr. á lítrann. Þetta var skoðað í fjármálaráðuneytinu og meira að segja starfshópur sem fór yfir þessi mál og niðurstaðan var eindregin að gera það ekki. Menn ættu í fyrsta lagi að búa sig undir þá framtíð að verð á jarðefnaeldsneyti yrði hátt. Skattlagningin reyndist hófleg á Íslandi borið saman við nágrannalöndin, heldur lægra hlutfall í heildarútsöluverði en á flestum hinna Norðurlandanna, og það væri eins og að pissa í skóinn sinn að grípa til slíkrar lækkunar. Bretar gerðu þetta og það entist í þrjár vikur, þá hafði heimsmarkaðsverðið hækkað svo mikið að lækkun ríkisins á sínum sköttum (Forseti hringir.) var horfin. Það hefði því ekki verið uppbyggileg pólitík og ég er í sjálfu sér feginn að menn eru ekki að fitja upp á slíku núna.