143. löggjafarþing — 106. fundur,  6. maí 2014.

gjaldskrárlækkanir o.fl.

315. mál
[19:18]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir að verkja athygli á því, ef ég skildi hann rétt, að í yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar frá því rétt fyrir jól er talað um að endurskoða til lækkunar vissar breytingar á gjöldum sem samþykktar hafi verið í tengslum við afgreiðslu fjárlaga 2014, sem þýðir að það gæti í raun verið hvað sem er. Nú man ég ekki í svipinn, voru það ekki einmitt gjöldin á nemendur, þau voru inni í þessu, það hefði verið hægt að taka þau og lækka þau í staðinn.

Tekið var fyrir það að fólk þyrfti að borga fyrir spítalarúmin — hvað er þetta aftur kallað … (Gripið fram í: Legugjöld.) Já, legugjöldin, þau voru tekin út vegna samninga við minni hlutann sem krafðist þess. Síðan snúa menn sér við og setja komugjöld í staðinn. Menn standa ekki við samninga.

Hér er heldur ekki verið að standa við samninga. Ríkisstjórnarflokkarnir lofa fyrir jól, í sinni einu yfirlýsingu í tengslum við gerð kjarasamninga, að endurskoða til lækkunar vissar breytingar á gjöldum sem samþykktar hafi verið í tengslum við afgreiðslu fjárlaga. Það er það sem þeir eru að gera hérna og verðlagsáhrifin af þeim eiga að verða minni en ella og innan verðbólgumarkmiða Seðlabankans og það er ekki heldur verið að standa við það.

Ef við förum aftur í samþykktir flokksins þá vilja flokksmenn að Sjálfstæðisflokkurinn geti verið traustur samningsaðili þegar kemur að samningum á atvinnumarkaði.