143. löggjafarþing — 106. fundur,  6. maí 2014.

gjaldskrárlækkanir o.fl.

315. mál
[20:29]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Við erum hér að ræða lækkun á olíugjaldi, kílómetragjaldi, vörugjaldi á ökutækjum og eldsneyti o.fl., umhverfis- og auðlindasköttum og gjald á áfengi og tóbaki. Eins og fram kom, bæði í ræðu hv. þingmanns og eins í andsvörum áðan, eru þetta lágar upphæðir þó að þær hafi átt að safnast saman upp á 460 millj. kr. tekjutap fyrir ríkissjóð, og þegar búið er að breyta dagsetningunni og ef maður beitir hlutfallsreikningi eru þetta 322 milljónir frá 1. júní. Auðvitaða er þarna eitthvað meira undir sem átti að taka á annan hátt.

Telur hv. þingmaður ekki að það verði erfitt að fylgjast með því eða hafa eftirlit með því að þetta fari í raun út í verðlagið? ASÍ hefur gagnrýnt greinargerð með frumvarpinu. Þar er talað um að þessar aðgerðir muni leiða til þess að vísitala neysluverðs lækki um 0,08% en ASÍ telur að það sé ofmat og að ef aðgerðirnar fari út í verðlagið, sem ég er að ýja að að líkur séu á að verði ekki, verði það ekki nema 0,04%–0,05%. Telur hv. þingmaður ekki að gjaldskrárbreytingarnar séu þá kannski til lítils?

Ég tek undir með hv. þingmanni þegar hún bendir á að nær hefði verið að lækka að gjöldin í heilbrigðisþjónustunni og að það mundi muna meira um það fyrir neytendur en þetta sem er til umræðu. Ég vil biðja hv. þingmann að ræða líkurnar á því (Forseti hringir.) að gjaldalækkunin nái markmiðum sínum.