143. löggjafarþing — 106. fundur,  6. maí 2014.

gjaldskrárlækkanir o.fl.

315. mál
[20:32]
Horfa

Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Oddnýju G. Harðardóttur fyrir spurningarnar. Jú, ég hef nefnilega áhyggjur af því. Ef ég velti því fyrir finnst mér það kýrskýrt varðandi bensínhækkanir og -lækkanir að það er þannig að þegar bensín- eða olíuverð á heimsmarkaði hækkar hækkar bensínið samdægurs eða daginn eftir. Það er mjög algengt. Ef heimsmarkaðsverð lækkar eru til svo miklar birgðir í landinu að það er ekki hægt að lækka verðið.

Ég held að það verði afar erfitt að fylgja því eftir að þetta skili sér til neytenda. Eins og kom fram er auðvitað liðið á árið og sumarið að fara í hönd og ég held að það verði flókið fyrirbæri að fylgja því eftir. Þetta eru svo litlar tölur og bensíngjald er sífellt að breytast um einhverja aura og verið að gefa afslætti og eitthvað slíkt, þannig að ég held að almenningur nái engan veginn að halda utan um það. Það verður þá kannski miklu meiri pressa á ASÍ eða fleiri að reyna að halda utan um og gæta að hag skjólstæðinga sinnar hvað þetta varðar.

Ég hef líka sagt og hef áhyggjur af því að þegar ASÍ kom hér fram og gagnrýndi áform ríkisstjórnarinnar varðandi fjármálastjórnina yfirleitt og þau áhrif sem hún gæti haft á skjólstæðinga þeirra virðist sem ríkisstjórnin hafi ekki tekið það til sín að þörf sé á að sýna því skilning heldur ákvað hún að lækka (Forseti hringir.) eitthvað sem getur varla talist nauðsynjavara, eins og brennivín og tóbak.