143. löggjafarþing — 106. fundur,  6. maí 2014.

gjaldskrárlækkanir o.fl.

315. mál
[20:43]
Horfa

Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Nei, hv. þingmaður, ég man það nefnilega ekki, en ég man hins vegar eftir því að við ræddum hér hversu mörgum prósentum munaði þar, ég man ekki hvort það voru 14%, 15% eða eitthvað slíkt, ég verð leiðrétt ef það er rangt, ég man það ekki, en það var alla vega töluverður munur á okkur og hinum Norðurlöndunum í þessu efni, það er náttúrlega ömurlegt.

Varðandi landsfundarsamþykktir þá ætla ég ekki að gera lítið úr því að það þarf oft að hliðra til því sem samþykkt hefur verið, stundum vegna aðstæðna. Ég get tekið dæmi um aðstæður hjá síðustu ríkisstjórn sem tók við gjaldþrota samfélagi, þ.e. ríkiskassa og bankakerfi, og gat nánast ekki framfylgt sínum innstu hugðarefnum eins og hún hefði viljað gera. Hún gerði þó sitt besta til þess að reyna að verja velferðina.

Hér koma menn að miklu betra búi en velja samt að keyra niður velferðina á kostnað þeirra sem minnst mega sín. Það er auðvitað athugunarvert.