143. löggjafarþing — 107. fundur,  9. maí 2014.

störf þingsins.

[10:48]
Horfa

Elín Hirst (S):

Virðulegur forseti. Hæstv. forsætisráðherra lét þau orð falla í þessum ræðustól nýlega að það væri sérkennilegt að landsbankamenn væru farnir að velta fyrir sér byggingu nýrra höfuðstöðva aðeins fimm árum eftir að bankinn komst í þrot í efnahagshruninu. Ég vil taka heils hugar undir þessi orð hæstv. forsætisráðherra.

Sem kunnugt er áformar Landsbankinn að byggja nýjar höfuðstöðvar við hlið Hörpu við Reykjavíkurhöfn. Eins og gefur að skilja falla þessi áform í grýttan jarðveg hjá mörgum. Landsbankinn er að stórum hluta í eigu ríkisins eftir hrunið. Á sama tíma og það skortir fé til að byggja nýjan Landspítala, sem ætti með fullri virðingu fyrir starfsemi Landsbankans að vera margfalt ofar á forgangslistanum, þá finnst mér vera út í hött að verið sé að ræða þessa hluti yfirleitt.

Efnahagshrunið var okkur Íslendingum mikið áfall. Eitt jákvætt gátu menn hins vegar fundið við hrunið, að vonandi yrði það okkur lexía um langan aldur, þótt dýrkeypt væri, um hvernig á ekki að standa að hlutunum. Þess vegna veldur það vonbrigðum ef menn hafa ekkert lært og ætla aftur sömu leið.

Það sem nú er efst á baugi er að reka hallalausan ríkissjóð, sem þýðir betri hag fyrir alla og leggja drög að næstu skrefum varðandi höfuðstöðvar þjóðarsjúkrahúss landsmanna meðal margra annarra þarfra mála.