143. löggjafarþing — 107. fundur,  9. maí 2014.

gjaldskrárlækkanir o.fl.

315. mál
[11:30]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf):

Virðulegi forseti. Hér er að finna breytingartillögu sem felur í sér að það sem launþegum var þó lofað í gjaldskrárlækkunum kemur bara til framkvæmda á seinni hluta ársins. Stjórnarmeirihluti með sjálfsvirðingu hefði látið fylgja hækkun á lækkuninni þannig að fólk fengi í sinn hlut það sem lofað var úr þessum ræðustól af ráðherrunum 21. desember, þ.e. að draga til baka 1 prósentustig af þeirri 3% gjaldskrárhækkun sem ríkisstjórnin stóð fyrir. En ríkisstjórnarmeirihlutinn nýtir sér það lag sem hann skapaði sér með tilgangslausu tali hér um tillögu um að draga til baka aðildarumsókn að Evrópusambandinu til að forðast að efna loforð sem gefið var. Það er hið alvarlega í þessu máli og ríkisstjórnarflokkunum til sannrar háðungar.