143. löggjafarþing — 107. fundur,  9. maí 2014.

stefnumótandi byggðaáætlun 2014--2017.

256. mál
[15:02]
Horfa

Jón Gunnarsson (S):

Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að lengja þessa umræðu mjög mikið, en vil þó koma hér upp og tæpa á nokkrum atriðum.

Það var mikil áhersla lögð á samstöðu í þessu máli í nefndinni og við náðum henni. Ég vil þakka nefndinni sérstaklega fyrir það hversu vel var unnið og það er ánægjulegt að við skulum hafa sameiginlega sýn í þinginu, í atvinnuveganefnd, á þróun í byggðamálum. Öll viljum við að byggð í landinu sé öflug og það eigi ekki aðeins við einhver ákveðin svæði, heldur að við höldum því markmiði á lofti að stuðla að öflugri byggð úti um allt land, sem við hér getum auðvitað með áherslum okkar haft mikið um að segja.

Það hefur aðeins verið rætt um dreifingarkostnað raforku og hvernig við getum mætt köldum svæðum. Það er mál í þinginu núna sem er skref í þá átt og hv. þm. Lilja Rafney Magnúsdóttir minntist á það áðan hvort það væri ekki vilji meiri hlutans að afgreiða það mál. Ég fullyrði það fyrir mitt leyti og um það var sátt í atvinnuveganefnd að svo yrði, við leggjum áherslu á það í byggðaáætlun.

Við erum einnig með ákveðin ný atriði í byggðaáætluninni sem kemur frá nefndinni, þ.e. að sá möguleiki verði kannaður að mæta háskólamenntuðu fólki, þeim sem eru með námslán til þess að fá einhverjar ívilnanir í þeim ef þeir búa á tilteknum svæðum á landinu. Þarna er ekki síst verið að horfa til þess að hvetja fólk í heilbrigðisstéttum til þess að fara til starfa úti á landi. Við vitum öll hvernig ástandið hefur verið á sumum stöðum varðandi það. Einnig að skoða þetta varðandi uppbætur á barnabætur til þess að hvetja ungt fólk til að flytjast út á land og taka þar þátt í uppbyggingu atvinnulífs. Ég held að þetta geti verið mjög mikilvægt. Við leggjum það til að athugun á því verði lokið 1. október 2015 og að fyrir árslok það ár muni forsætisráðherra skila okkur skýrslu um stöðu mála í þeim athugunum.

Við komum líka inn á að stutt verði við uppbyggingu í atvinnulífinu almennt. Ég vil sérstaklega nefna stuðning við uppbyggingu skógarauðlindar. Ég er ekki sammála því sem kom fram áðan að skógrækt geti ekki orðið alvöru atvinnugrein á Íslandi. Það eru allir sammála sem þekkja þennan málaflokk vel um að ef valið er rétt land og rétt landsvæði fyrir skógrækt og plantað í það þeim trjám sem henta sé skógrækt arðsöm fjárfesting sem getur skapað hér alvöru atvinnu og verðmæti á ársgrundvelli.

Þetta kemur ágætlega fram í þingsályktunartillögu sem við nokkrir þingmenn höfum flutt um eflingu skógræktar sem atvinnugreinar og liggur núna fyrir þinginu að afgreiða. Það eru mikil tækifæri á þeim vettvangi. Við leggjum áherslu á það í þessari áætlun.

Það hefur oft verið sagt um byggðaáætlun þegar hún er afgreidd frá þinginu að hún sé eitt af þeim málum sem þingið afgreiði, það fari síðan upp í hillu og safni ryki og sé ekkert gert með ákvarðanir eða samþykktir þingsins í þeim efnum. Við erum alla vega að reyna að stíga þau skref að bæta þar úr, varðandi þessa skýrslu sem forsætisráðherra á að flytja okkur um ákveðna þætti í byggðaáætluninni. Ég geri mér vonir um að það verði til þess að við náum að vinda ofan af þessu. Það er auðvitað mjög mikilvægt að þeirri stefnu sem þingið markar í þeim efnum sé fylgt eftir af festu og alvöru, vegna þess að það er ómögulegt að við séum að gefa einhverjar væntingar í tillögum, þingsályktunartillögum, sem hér eru samþykktar og fylgjum því síðan ekki eftir til þess að sjá einhverjar framkvæmdir verða.