143. löggjafarþing — 107. fundur,  9. maí 2014.

skráning upplýsinga um umgengnisforeldra.

71. mál
[17:29]
Horfa

Frsm. velfn. (Guðbjartur Hannesson) (Sf):

Hæstv. forseti. Ég hef hér framsögu fyrir nefndaráliti frá hv. velferðarnefnd, sameiginlegu nefndaráliti allra nefndarmanna, um tillögu til þingsályktunar um skráningu upplýsinga um umgengnisforeldra. Þetta er tillaga sem flutt er af þingflokki Bjartrar framtíðar undir forustu hv. þm. Guðmundar Steingrímssonar. Framögumaður á þessu máli átti að vera Björt Ólafsdóttir en vegna fjarveru hennar flyt ég nefndarálitið með breytingartillögu.

Með tillögunni var í upphafi lagt til að ríkisstjórninni yrði falið að sjá til þess að haldin yrði skrá um sögulegt yfirlit yfir umgengnisforeldra, fjölda þeirra, kyn, hjúskaparstöðu og fjölda barna þeirra. Slík skráning upplýsinga hæfist eigi síðar en 1. janúar 2015. Þannig var tillagan. Gestir og umsagnaraðilar nefndarinnar voru almennt jákvæðir um efni tillögunnar og lýsa sig flestir samþykkir henni.

Markmið tillögunnar er að bæta almannaskráningu hér á landi þannig að í þeim opinberu skrám sem haldnar eru verði skráðar allar nauðsynlegar upplýsingar um fjölskyldumynstur landsmanna. Skráning upplýsinga um umgengnisforeldra er í lamasessi hér á landi sem lýsir sér í því að í allri opinberri skráningu eru umgengnisforeldrar skráðir barnlausir. Þessir foreldrar fara iðulega með forsjá barna sinna ásamt hinu foreldrinu og oft hefur barnið jafna búsetu hjá báðum foreldrum en öll opinber skráning tengd barninu fylgir hins vegar lögheimili þess og þar af leiðandi því foreldri sem barnið á lögheimili hjá. Það má segja að þetta sé barátta fyrir því að vera til í kerfinu, ef maður getur orðað það svo.

Fyrir nefndinni kom fram að aukin skráning hvað þessi atriði varðar væri af hinu góða. Þjóðskrárkerfið er orðið verulega gamalt og býður upp á mjög takmarkaða skráningarmöguleika. Leiða má líkur að því að kerfið sé stór þáttur í ástæðu þess að vantað hefur upp á skráningu. Upplýsingar um fjölskyldustærð og fjölskyldusamsetningu eru til að mynda ekki skráðar í þjóðskrárkerfið þótt þessar upplýsingar liggi fyrir hjá Þjóðskrá Íslands. Í greinargerð tillögunnar kemur fram að rétt sé að skoða aðkomu Þjóðskrár að verkefninu á þann hátt að stofnunin skrái upplýsingarnar sem um ræðir en unnið verði úr þeim á hagrænan máta af Hagstofu Íslands. Þjóðskrá Íslands og Hagstofa Íslands taka undir þetta sjónarmið og bendir nefndin á að rétt sé að taka tillit til þess.

Nefndin telur rétt að umorða tillögugreinina þannig að markmið tillögunnar verði skýrara. Ljóst er að þær upplýsingar sem lagt er til að skráðar verði eru nú þegar skráðar að miklu leyti en skila sér þó ekki, eins og fram hefur komið, í þá almannaskráningu sem Þjóðskrá Íslands vinnur á grundvelli laga um þjóðskrá og almannaskráningu, nr. 54/1962.

Nefndin leggur fram eftirfarandi breytingartillögu:

„Tillögugreinin orðist svo:

Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að sjá til þess að í almannaskráningu á Íslandi verði skráðar nauðsynlegar upplýsingar um umgengnisforeldra til jafns við aðra foreldra svo fljótt sem auðið er og eigi síðar en 1. janúar 2016.“

Þeir sem skrifa undir nefndarálitið eru hv. þm. Sigríður Ingibjörg Ingadóttir formaður, hv. þm. Björt Ólafsdóttir framsögumaður, sem ég leysi nú af, hv. þm. Þórunn Egilsdóttir, hv. þm. Ásmundur Friðriksson, hv. þingmaður sem hér stendur, hv. þm. Lilja Rafney Magnúsdóttir og hv. þm. Unnur Brá Konráðsdóttir. Hv. þingmenn Elín Hirst og Páll Jóhann Pálsson voru fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Þetta mál hangir saman við það mál sem við vorum með hér á undan, 19. mál á dagskrá, um jafnt búsetuform barna, þ.e. bæði þessi mál fjalla um réttindi barna. Þetta tengist meira, eins og ég sagði áðan, réttinum til að vera til í kerfinu. Það kom náttúrlega líka fram og er gríðarlega mikilvægt, því að við erum oft að ræða hér um heimili og hagsmuni heimilanna og að þjóna fjölskyldum, að oft talar maður eins og fjölskyldurnar séu allar í gamla forminu, tveir fullorðnir, þ.e. hjón, með eitt eða tvö börn, en veruleikinn er allt annar. Fjölskylduformið er miklu, miklu fjölbreyttara en það og sennilega er algengasta búsetuformið einhleypir eða einstæðir foreldrar. Þess vegna er mjög mikilvægt þegar verið er að vinna tölfræði um heimilin og afkomu þeirra og ég tala nú ekki um aðstöðu og annað slíkt að til séu upplýsingar um það.

Það kom einmitt fram hjá nefndinni að einstakir foreldrar, sem hafa umgengnisrétt og jafnvel jafnan umgengnisrétt við börn sín, hafa staðið í þrætum þegar þeir hafa sótt um lán eða einhver ákveðin réttindi vegna þess að menn líta í Þjóðskrána og segja: Nei, þú er einstæður, þú ert ekki með barn, það er ekkert barn með þetta lögheimili. Þá kemur það hvergi fram í neinum upplýsingum að viðkomandi er með forræði yfir börnunum að hálfu og börnin dvelja á þessu heimili að hálfu en lögheimilið er skráð annars staðar.

Ég ætla ekki að hafa fleiri orð um þetta. Ég tók það kannski ekki fram í fyrri umræðu en við erum í þessum tveimur málum að afgreiða þingsályktunartillögur. Hér er um að ræða síðari umræðu og það er ánægjulegt að þetta komi til atkvæðagreiðslu eftir umræður í dag, strax eftir helgina. Eins og ég segi þá er hluti af þeim fimm málum sem eru á dagskrá í dag þingmannamál sem verða vonandi afgreidd á þessu vorþingi.