143. löggjafarþing — 108. fundur,  12. maí 2014.

breyttir skilmálar á skuldabréfi Landsbankans.

[10:47]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Herra forseti. Gerð var lagabreyting fyrir nokkrum missirum þar sem fjárhæðir sem áttu að fá undanþágu frá gjaldeyrishöftunum voru færðar inn í lögin, þ.e. ákveðnar viðmiðunarfjárhæðir. Í þessu máli er nokkuð ljóst að þær eiga við. Það þýðir að það þarf aðkomu fjármálaráðuenytisins. Það þýðir líka að það mun þurfa samráð við efnahags- og viðskiptanefnd Alþingis. Við erum ekki enn komin á það stig.

Þarf heildarplan? Já, sé ekki til staðar lausn fyrir aðra þætti í losun gjaldeyrishafta þarf a.m.k. að liggja fyrir að það sem gert verður í þessu máli eða öðrum falli að slíku heildarplani þannig að menn sitji ekki eftir með stærri vanda en ella hefði verið eða slæmt fordæmi sem ekki væri hægt að fylgja eftir gagnvart öðrum. (Forseti hringir.)

Varðandi vaxtakjörin ítreka ég það sem ég sagði áður að ég tel að það hafi verið undir mjög óeðlilegum kringumstæðum sem samið var um (Forseti hringir.) þetta á sínum tíma. Þetta voru kannski ekki hefðbundin viðskiptakjör, en bankanum verður frjálst að gera þetta lán upp hvenær sem er ef ég hef skilið skilmálana rétt.