143. löggjafarþing — 108. fundur,  12. maí 2014.

brottnám líffæra.

34. mál
[11:57]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Ég spurði hvað þetta þýddi af því að ég þekki ekki fyrirkomulagið sem talað er um í nefndarálitinu þar sem nefndin leggur til að frumvarpinu sé vísað til ríkisstjórnarinnar. Það er það sem við greiðum atkvæði um, ekki um frumvarpið heldur um frávísun eða vísun til ríkisstjórnar.

Hvað er verið að gera? Þetta verður eins konar þingsályktun, (Gripið fram í.)já, þar sem nefndin leggur til að frumvarpið verði afgreitt á þann hátt að því verði vísað til ríkisstjórnarinnar, unnið áfram í málinu, fyrrnefnd atriði tekin til sérstakrar skoðunar og farið í að skoða hvernig sé hægt að fjölga líffæragjöfum o.s.frv. En í dag er ekki verið að samþykkja ætlað samþykki, það að áætla að allir samþykki líffæragjafir. Við þurfum að skoða hvernig sé hægt að fjölga líffæragjöfum án þess að þvinga alla til þess með því að segja: Þið hafið samþykkt þetta og þið verðið að draga ykkur út.

Það reyndum við með Íslenska erfðagreiningu á sínum tíma og það fór ekki vel. Fólk var ekki ánægt með að áætlað væri að það hefði samþykkt. Þarna er því verið að skoða hvernig, (Forseti hringir.) án þess að fara þá leiðina, sé hægt að fjölga líffæragjöfum, sem við viljum vissulega öll gera.