143. löggjafarþing — 108. fundur,  12. maí 2014.

málefni innflytjenda.

517. mál
[12:31]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Það var nú það fyrsta sem kom mér í hug, þegar ég frétti af þessu máli, að þarna væru menn að vinna með þær hagræðingartillögur sem komu frá hagræðingarhópnum svonefnda sem ríkisstjórnin skipaði. Menn væru að máta sig við ýmsar hugmyndir, hvar væri hægt að spara og hagræða, burt séð frá því hvað hefði samlegðaráhrif þegar upp væri staðið. Ég óttast það að vissu leyti að menn horfi þarna meira í sparnað fyrir ríkið en að þessir málaflokkar falli það vel saman að það liggi í augum uppi að vinna eigi að því að steypa þeim í eina stjórnsýslu.

Ég tel að fara þurfi miklu betur yfir það hvort það sé endilega rétt. Það fer líka eftir því hvernig unnið verður með það í framhaldinu, hvar skrifstofur verða eða útibú til að sinna þessum málaflokki, hvernig sú þjónusta dreifist um landið og aðgengi landsmanna að þeirri þjónustu, og líka, eins og ég hef nefnt hér áður, að þeirri þekkingu sem hefur byggst upp í þessari starfsemi, hvernig varðveitist hún áfram og er unnið með hana, að hún týnist ekki inni í einhverri stærri stjórnsýslustofnun. Ég tel að í því návígi sem Fjölmenningarsetur hefur verið í við þann fjölda innflytjenda sem verið hefur á Vestfjörðum í gegnum árin, liggi mjög (Forseti hringir.) dýrmæt þekking.