143. löggjafarþing — 108. fundur,  12. maí 2014.

séreignarsparnaður og ráðstöfun hans til greiðslu húsnæðislána og húsnæðissparnaðar.

484. mál
[15:49]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vænti þess að fá svar við þessu með þá tekjuhærri og tekjulægri og þá upphæð sem þarna er, hversu mikið maður þarf að hafa í tekjur til þess að geta nýtt sér þennan séreignarsparnað að fullu.

Í allri umfjöllun hæstv. ríkisstjórnar og raunar fyrrverandi ríkisstjórnar líka hafa menn sett fókusinn á að jafna eigi stöðu leigjenda og eigenda á húsnæðismarkaði. Menn hafa lagt mikið upp úr því. Það eru tillögur núna frá verkefnisstjórn, frá hæstv. félags- og húsnæðismálaráðherra um að reyna að jafna þá stöðu. Eru þessar tillögur ekki í andstöðu við það, þar sem meginfókusinn er að reyna að safna sér fyrir kaupum á húsnæði? Mér finnst skipta miklu máli að menn skoði það í samhengi. Mér finnst hafa verið áberandi hjá hæstv. ríkisstjórn að vinstri höndin veit ekki hvað sú hægri er að gera þannig að menn eru ekki samstilltir í þeim ákvörðunum sem lagðar eru fram. Það kom nú fram hjá hv. framsögumanni að meginrökin í niðurstöðunni hér eru að í byrjun hafi verið búið að ákveða hver niðurstaðan ætti að vera.