143. löggjafarþing — 108. fundur,  12. maí 2014.

séreignarsparnaður og ráðstöfun hans til greiðslu húsnæðislána og húsnæðissparnaðar.

484. mál
[17:14]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Líkt og sumir aðrir stjórnarandstæðingar ræddi hv. þingmaður töluvert mikið um það sem er ekki í frumvarpinu í staðinn fyrir það sem er í því. Ég hjó eftir því að snemma í ræðu sinni minntist hann á að þetta væri, þegar öllu væri á botninn hvolft, ekkert svo almenn aðgerð þó að hún komi hundrað þúsund heimilum að gagni. Hann benti á að sérstök vaxtabótafærsla fyrri ríkisstjórnar hefði komið miklu fleiri að gagni og væri miklu almennari aðgerð. Mig langar til þess að biðja hann að rifja upp með okkur hversu mikil að umfangi sú aðgerð var, þ.e. hversu há sú upphæð sem deildist á þessi fjöldamörgu heimili var vegna sérstöku vaxtabótanna á sínum tíma.

Í seinna svarinu ætla ég að spyrja aðeins út í mismuninn á 110%-leiðinni sem bankarnir stóðu straum af en fyrrum ríkisstjórn ákvað. En mig langar að fá svar við þessu fyrst. Hversu mikil að vöxtum var þessi sérstaka (Forseti hringir.) vaxtabótagreiðsla?