143. löggjafarþing — 108. fundur,  12. maí 2014.

séreignarsparnaður og ráðstöfun hans til greiðslu húsnæðislána og húsnæðissparnaðar.

484. mál
[17:49]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (Bf) (andsvar):

Já, ég er nú búinn að segja það nokkrum sinnum, ég held að stöðugt efnahagslíf, t.d. með nýjum gjaldmiðli, sem okkur í Bjartri framtíð verður nokkuð tíðrætt um, meiri áherslu á að styðja nýjar atvinnugreinar sem geta skapað meiri útflutningstekjur og aukið framleiðni á Íslandi eins og í nýsköpun, rannsóknum og þróun, skapandi greinum, grænum iðnaði; það væri góð fjárfesting til framtíðar, mundi bæta kjör. Betri skuldastaða ríkissjóðs þannig að ríkissjóður hefði meira svigrúm til að fjárfesta í nauðsynlegum innviðum samfélagsins, það mundi líka bæta kjör.

Svona innspýting inn á höfuðstól heimilanna, sem er ákaflega líklegt að fjölmörg heimili muni einkum nýta til að sækja fé til neyslu, vegna þess að aukið veðrými skapast, finnst mér (Forseti hringir.) að sama skapi ekki skynsamleg hagstjórn. Neyslan yrði líklega aðallega á innfluttum vörum sem mundi auka viðskiptahalla, sem við megum alls ekki við.