143. löggjafarþing — 108. fundur,  12. maí 2014.

séreignarsparnaður og ráðstöfun hans til greiðslu húsnæðislána og húsnæðissparnaðar.

484. mál
[18:46]
Horfa

Höskuldur Þórhallsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Á síðasta kjörtímabili lagði ríkisstjórn Samfylkingarinnar fram tillögur til þess að mæta vanda þeirra sem höfðu tekið verðtryggð húsnæðislán. Við göngum hér og nú lengra vegna þess að við töldum alls ekki nægilega langt gengið í að leiðrétta þann forsendubrest sem varð til í hruninu. Það sem ég gagnrýni er að þeir sem þó voru til í að stíga einhver skref á þeim tíma skuli koma fram núna og gagnrýna. Það er talað um að þetta sé ekki almenn aðgerð vegna þess að hún beinist eingöngu að þeim sem voru með verðtryggð húsnæðislán. Það er alveg rétt, en aðgerðirnar á síðasta kjörtímabili voru sama marki brenndar. Hv. þingmaður er hér með tillögur um barnabætur. Og þær munu nýtast hverjum? Þeim sem eiga ung börn, ekki satt? Ekki öðrum, ekki öldruðum og öryrkjum sem eru ekki í sama hópi, hún miðast að tilteknum þjóðfélagshópi.

Það er sú nálgun sem ég á mjög erfitt með að sætta mig við. Þetta eru hvort tveggja aðgerðir sem duga eða eiga að gagnast fólki sem er í vandræðum, sem Samfylkingin viðurkenndi þó á síðasta kjörtímabili að ætti í vandræðum þótt hún vildi ekki ganga jafn langt.

Svo er líka ein spurning sem ég vil leggja fyrir hv. þingmann. Nú voru samþykkt hér neyðarlög. Öllu þeim sem áttu peninga í banka, þeim ríku, var bjargað. Samfylkingin stóð fyrir því. Það voru settir 200 milljarðar til þeirra sem áttu í peningamarkaðssjóðnum. Það voru þeir sem tóku áhættu. (Forseti hringir.) Það var ekki fólk sem lapti dauðann úr skel. Síðan kemur að þeim sem voru með gengistryggðu lánin. Nú erum við að koma til móts við þá sem eru með verðtryggðu lánin en þá rís Samfylkingin upp á afturlappirnar og segir: Nei, hingað og ekki lengra. Mér finnst það ósanngjarnt.