143. löggjafarþing — 108. fundur,  12. maí 2014.

séreignarsparnaður og ráðstöfun hans til greiðslu húsnæðislána og húsnæðissparnaðar.

484. mál
[20:01]
Horfa

Brynhildur Pétursdóttir (Bf):

Virðulegi forseti. Við ræðum frumvarp til laga um séreignarsparnað. Það er eiginlega svolítið erfitt að ræða þetta mál nema með skuldaniðurfellingaráformunum, en við ætlum að ræða þau á morgun og ég ætla að reyna að halda mig við séreignarsparnaðarfrumvarpið nú.

Ég er frekar mótfallin þessu frumvarpi þó að mér finnist það illskárra en hitt, þ.e. niðurfellingarmálið. Það er aðallega vegna þess að mér finnst ekki svo margir hópar geta nýtt sér þetta úrræði. Ég get alveg séð að það er gáfulegt að fólk leggi til hliðar og spari en þá velti ég fyrir mér hvort við ættum ekki bara að taka upp gamla góða skyldusparnaðinn, sem ég naut reyndar. Ég er orðin það gömul að ég var í því kerfi og það kom sér ágætlega. Það sem mér finnst kannski verst er hversu illa leigjendur koma út í þessum aðgerðum vegna þess að allir skattgreiðendur koma til með að standa undir þessum aðgerðum en bara sumir njóta þeirra. Mér finnst líka áhyggjuefni að t.d. nemendur, sem eru með lágar tekjur kannski og vinna bara á sumrin, muni ekki geta nýtt sér þetta nema að litlu leyti.

Mér fannst áhugaverð umræðan sem fór fram hérna í dag. Mig minnir að það hafi verið hv. þm. Árni Páll Árnason sem var að tala um hvort aðgerðirnar gætu haft þau áhrif að ungt fólk frestaði því að fara í skóla til að nýta sér þetta úrræði. Það finnst mér svolítið stór spurning. Nú er ég sjálf með börn sem eru að klára menntaskóla og þekki marga á þessum aldri, tuttugu, tuttugu og eins árs, sem hafa hugsað sér að taka árs frí og halda svo áfram í skóla. Maður veltir því fyrir sér. Með því að fara út á vinnumarkaðinn núna getur þetta unga fólk nýtt sér skattafsláttinn sem felst í þessum aðgerðum. Það er spurning hvort það sé einhver hvati til þess.

Annað sem mér finnst ágætt að hafa í huga er að þeir sem fara í þetta úrræði, segjum leigjendur sem hafa hugsað sér að kaupa íbúð, þurfa að gera það fyrir 2019. Þá veltir maður fyrir sér hvort það muni hafa einhver áhrif á fasteignamarkaðinn, hvort þá verði það margir sem hafi beðið með að kaupa sér íbúð og fari svo allir af stað á sama tíma. Þetta er meðal þess sem er óljóst.

Síðan munu ellilífeyrisþegar og öryrkjar ekki njóta þessa.

Það er líka annað sem við þurfum að horfast í augu við varðandi þetta úrræði og skuldaniðurfellinguna. Þeir sem kaupa sér fasteign gera það eiginlega á eigin ábyrgð. Mér finnst hérna verið að láta þjóðfélagshópa borga fyrir fasteignaeigendur. Þeir sem eru núna í þeirri stöðu að eiga fasteign, jafnvel þótt það hafi orðið forsendubrestur sem allir urðu fyrir í hruninu, eru að mörgu leyti í miklu betri stöðu en þeir sem eru á leigumarkaði. Við á Íslandi höfum gjarnan tekið íbúðalán til 40 ára, verðtryggð jafngreiðslulán. Um tíma þurfti ekki að eiga nema 10% í útborgun og taka 90% lán. Þá vorum við í rauninni að kaupa leigurétt, það er bara þannig. Það þarf ekki einu sinni að vera mikil verðbólga til þess að á einhverjum tímapunkti eigi maður minna í húsinu en maður skuldar í því. Við gerum samt þær kröfur að ef við kaupum húsnæði eigum við bara að eignast það hratt og örugglega. Það gerist auðvitað ekki nema við tökum lán til styttri tíma og séum tilbúin að byrja að greiða strax inn á höfuðstólinn, en það þýðir hærri greiðslubyrði. Við höfum bara ekki verið tilbúin til þess. Mér finnst líka rétt að benda á það.

Í umsögn minni hluta fjárlaganefndar, sem var send efnahags- og viðskiptanefnd, gagnrýndi minni hlutinn af hverju ekki hefði verið gert heildstætt mat á því hvernig þeim fjármunum sem í heild ætti að verja í þessar aðgerðir yrði best varið.

Okkur finnst svo margt óljóst í þessu máli. Við höfum t.d. talað um það hérna í dag ef húsnæðiseigendur fengju þessi úrræði, gætu nýtt sér bæði séreignarsparnaðinn og svo niðurfellinguna, hvort það mundi leiða til þess að fólk nýtti sér veðrýmið sem myndaðist og tæki lán út á húsið sitt. Einhverjir þingmenn voru mjög hneykslaðir á því. Ég man ekki hvort það var hv. þm. Guðmundur Steingrímsson sem var að ræða þetta og einhver þingmaður brást ókvæða við og gaf lítið fyrir það að landsmenn mundu ekki spara heldur færu allir út að eyða pening, en það er oft þannig, það er freistandi þegar mönnum áskotnast peningur. Heimilin hafa mörg hver þurft að standa í aðhaldi og vantar margt. Við getum ekkert útilokað að þessar aðgerðir ýti undir þenslu og að fólk nýti sér veðrýmið sem myndast með niðurfellingunni.

Annað sem ég vil benda á og mér finnst kannski helsta áhyggjuefnið er að þessi séreignarsparnaðarleið ýtir undir séreignarúrræðið. Mér finnst mikilvægt að við komumst út úr því. Við erum oft að bera okkur saman við önnur lönd og eiginlega víðast hvar í kringum okkur er virkur leigumarkaður sem er öruggur, þar eru leigufélög. Auðvitað hefur það áhrif að vextir á Íslandi eru mjög háir, vaxtastigið er bara öðruvísi hér og það hefur sitt að segja, en mér finnst þessi aðgerð eiginlega ýta undir séreignarstefnuna. Við erum að segja við leigjendur sem eru þarna úti: Sparið, fáið skattafslátt og komið ykkur inn í eigið húsnæði þannig að við getum bjargað ykkur aftur eftir 15 ár þegar næsti forsendubrestur verður væntanlega. Mér finnst þetta ekki góð skilaboð. Mér finnst þetta koma á skrýtnum tíma. Á sama tíma og verið er að vinna að einhverri húsnæðisstefnu, hæstv. félagsmálaráðherra er að því, þá sendum við þessi skilaboð.

Á heildina litið er ég ekki nógu ánægð með þetta þó að mér finnist þetta mun skárri aðgerð en niðurfellingin sem við ætlum að ræða á morgun, þar sem við ætlum að deila út 80 milljörðum á fjórum árum til heimilanna sem eru með verðtryggð lán. Það finnst mér ekki gott.

Ég held að ég hafi þetta ekki lengra. Ég þyrfti eiginlega að fá tvöfaldan tíma fyrir ræðuna á morgun. Mér liggur meira á hjarta um það mál. Ég læt þessu lokið í bili.