143. löggjafarþing — 108. fundur,  12. maí 2014.

séreignarsparnaður og ráðstöfun hans til greiðslu húsnæðislána og húsnæðissparnaðar.

484. mál
[22:46]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þessar spurningar. Það er áhugavert að glíma við þær.

Hvernig á að hafa áhrif á viðhorf í samfélaginu? Að mínu viti skiptir fræðsla verulega miklu máli í því efni og það hvernig við ölum upp börnin okkar og stöndum að þeim málum. Auðvitað skiptir skólakerfið máli í því efni. Lengi býr að fyrstu gerð, er sagt og ég held þess vegna að það skipti máli að þessi viðhorf síist inn strax í skólakerfinu. Börn og ungmenni á Íslandi hafa um langt skeið verið alin upp við þetta steinsteypubrjálæði, leyfi ég mér að segja, þar sem allt snerist um að foreldrarnir ynnu myrkranna á milli og eftir vinnutíma var farið í að slá upp, steypa og guð má vita hvað. Sem betur fer erum við svolítið frá þessum veruleika í dag. Ég tel að fræðsla sé mikilvæg.

Ég tel líka mikilvægt að fólki sé gert kleift að spara með ýmsum hætti. Sumir vilja auðvitað leggja sparnað sinn inn á reikning. Sumir vilja fjárfesta í atvinnustarfsemi eða menningu eða listum. Sumir vilja fjárfesta í eigin húsnæði en það eru ekki allir sem vilja gera það. Það eru ekki öll sparnaðarform eins meðhöndluð hvað þetta snertir.

Að því er varðar kynslóðareikningana og arfinn þá sagði hv. þm. Pétur H. Blöndal hér áðan að hann hefði áhyggjur af því viðhorfi sem honum fannst gæta að ríki og sveitarfélög litu svo á að þau ættu skatttekjur íbúanna. Ég vil nánast leyfa mér að segja það sama þegar kemur að umræðu um arfinn. Þó að börnin okkar erfi okkur þegar upp er staðið þá eiga þau ekki það sem við eigum í dag. (Forseti hringir.) Ég vil ekki nálgast þetta þannig að við þurfum að spara svo mikið til að börnin okkar erfi sem (Forseti hringir.) mest. Það er ekki mín ákvörðun.