143. löggjafarþing — 109. fundur,  13. maí 2014.

séreignarsparnaður og ráðstöfun hans til greiðslu húsnæðislána og húsnæðissparnaðar.

484. mál
[13:54]
Horfa

Frosti Sigurjónsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Ögmundi Jónassyni fyrir afskaplega fróðlega ræðu.

Ég vildi spyrja hv. þingmann í framhaldi af áhyggjum sem við deilum um stærð lífeyrissjóðanna, sem eru orðnir mjög stórir. Þeir eru núna ein og hálf landsframleiðsla, 2.700 milljarðar, og umsvif þeirra eru mjög mikil. Þeir þurfa að fjárfesta á hverju ári fyrir 100–120 milljarða umfram það sem þeir greiða í lífeyri. Það er að verða töluvert vandamál að finna fjárfestingar sem geta skilað vöxtum til framtíðar.

Með því frumvarpi sem hérna er verið að ræða þar sem verið er að hvetja fólk til að leggja ekki inn í lífeyrissjóð sinn heldur að lækka skuldina í íbúð sinni, sem ber áreiðanlega 3–5% vexti, er það ekki besta fjárfestingin sem býðst skjólstæðingum lífeyrissjóðanna, öruggasta ávöxtunin? Og er þetta ekki líka leið til þess að draga úr þeim vanda sem lífeyrissjóðir standa frammi fyrir að finna góðar fjárfestingar fyrir 100–120 milljarða á ári? Mér reiknast til að ef þetta yrðu 100, jafnvel 200 milljarðar á næstu þremur árum, segjum bara 100 milljarðar til að vera hófleg, með þessari séreignarsparnaðarleið, þá yrðu það 30 milljarðar á ári sem færu til lækkunar á skuldum heimilanna. Þá er ég að tala um vaxtareiknaðar tölur eins og menn eru farnir að gera, með 3,5% vöxtum. Mundi það ekki vera leið til þess að draga úr þeim vanda og minnka líkur á bólumyndun á eignamarkaði?