143. löggjafarþing — 109. fundur,  13. maí 2014.

séreignarsparnaður og ráðstöfun hans til greiðslu húsnæðislána og húsnæðissparnaðar.

484. mál
[14:53]
Horfa

Frsm. minni hluta efh.- og viðskn. (Árni Páll Árnason) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég vil taka hér til máls aftur í þessari umræðu, sérstaklega í kjölfar ræðu hv. þm. Oddnýjar Harðardóttur og taka undir með henni varðandi þá breytingartillögu sem hún hefur lagt fram í þessu máli um barnabætur og legg áherslu á að tækifærið verði nýtt nú til þess að samþykkja þá tillögu. Eins og hv. þingmaður rakti geta litlar fjárhæðir skipt máli fyrir barnmörg heimili sem lítið hafa milli handanna. Það er stór ágalli á öllum þessum aðgerðapakka ríkisstjórnarinnar, og sérstaklega aðgerðunum sem lúta að almennri skuldalækkun, að þær nýtast síður barnmörgum heimilum. Öfugt við það sem hingað til hefur verið meginreglan í aðgerðum sem hafa að markmiði að jafna stöðu eða taka á vanda vegna skuldsetningar er nú í fyrsta skipti að finna aðgerðir sem ekki eru hannaðar með það fyrir augum að þær nýtist best barnmörgum fjölskyldum.

Ég vildi að öðru leyti í þessari seinni ræðu minni fjalla stuttlega um efnahagsþátt þessa máls vegna þess að mér gafst ekki færi til þess í upphafsræðu minni að fjalla almennilega um efnahagsgreininguna sem að baki liggur.

Fyrir liggur álit Seðlabanka Íslands þar sem færð eru fyrir því rök að aðgerðirnar í heild sinni séu neikvæðar, hafi neikvæð efnahagsleg áhrif. Af hálfu talsmanna ríkisstjórnarinnar hefur oft verið bent á það á undanförnum mánuðum að séreignarsparnaðarþátturinn muni á vissan hátt vega upp á móti neikvæðum verðlagsáhrifum og þensluáhrifum af hinni almennu skuldalækkun. Þannig vinni aðgerðirnar hvor með annarri. Áhyggjuefnið er hins vegar það að þegar maður horfir betur á þessa þætti liggur fyrir að það sem gerist með inngreiðslunni og með því að séreignarsparnaðurinn er fluttur úr óaðfararhæfri og óveðhæfri eign, sem er séreignarlífeyrisinneignin, yfir í veðhæfa eign sem er eign í húsnæði, þá myndast veðrými. Með öðrum orðum, eins og staðan er í dag getur fólk ekki veðsett inneign sína í séreignarsparnaði. Ef séreignarsparnaður rennur nú í ríkari mæli til niðurgreiðslu á húsnæðislánum myndast eign í húsnæðinu sem reynslan sýnir okkur að mun líklega verða nýtt til aukinna veðsetninga.

Ef við horfum á þróunina frá 2002 til hruns er mjög áberandi það sem vel metnir hagfræðingar hafa nú kallað eiginfjárdrátt, sem er rík tilhneiging til þess að fólk éti út hækkunina á fasteignamatinu, éti út aukið veðrými sem myndast í eigninni samhliða verðhækkun á fasteignum. Sérstaklega frá 2002 og fram að hruni var mjög áberandi sú tilhneiging að sú verðhækkun leiddi strax til aukinnar veðsetningar á móti.

Það er vert að nefna þetta nú vegna þess að ef þetta frumvarp gengur fram eru sem sagt líkur á því að ónýtt veðrými myndist í ríkari mæli en nú er og reynslan bendir til þess að það verði nýtt til aukinnar skuldsetningar.

Menn geta spurt sig: Er sami þrýstingur til aukinnar skuldsetningar nú? Höfum við kannski lært eitthvað af þróun undanfarinna ára? Við höfum séð ríka tilhneigingu til skuldsetningar vegna þess að kreppt hefur að kaupmætti fólks og það hefur átt erfiðara með að láta enda ná saman eftir gengishrun krónunnar. Það eru því miður engar horfur á því að slík gengisstyrking sé fram undan sem muni valda verulegri kaupmáttaraukningu. Allar tölur um aukningu til dæmis á yfirdráttarskuldum benda til þess að það sé enn verulegur þrýstingur á skuldsetningu heimila.

Ég vildi ræða þetta sérstaklega vegna þess að það setur þessa aðgerð í aðra umgjörð en ella. Það eru með öðrum orðum líkur á að það neikvæð efnahagsáhrif geti myndast af þessari aðgerð umfram það sem almennt hefur verið talið hingað til.

Það er auðvitað líka umhugsunarefni að sú breyting skuli verða vegna þessara aðgerða að skuldsetning fari í ríkari mæli úr óaðfararhæfri eign, sem er séreignarlífeyrissparnaðurinn, í aðfararhæfa eign.

Það sýndi sig í kjölfar hruns hversu mikilvægt það var fjölda fólks að eiga séreignarlífeyri sinn. Í krafti séreignarlífeyrisinneignarinnar gat fólk sem missti jafnvel húsnæði sitt byrjað upp á nýtt. Ég sá ýmis dæmi um að í krafti séreignarlífeyrissparnaðar öðlaðist fólk samningsstöðu gagnvart fjármálafyrirtækjum vegna þess að það gat sagt: Heyrðu, hér á ég eign sem þú kemst ekki í, en ef ég kem með hana inn í púllíuna og legg hana í púkkið, hvað ert þú þá til í að gera á móti?

Það er mikilvægt að eiga sparnað sem ekki er aðfararhæfur. (Gripið fram í.)Það er ekki endilega dyggð þegar leka setur að einum bát í bátalest að leysa það vandamál með því að binda alla bátana saman.

Ég held þess vegna að full ástæða sé til þess að hugsa hvort ekki sé varhugavert að hvetja menn með of ríkum hætti til þess að þeir flytji skuldsetningu úr séreignarsparnaði yfir í húsnæði því að þá er vissulega auðveldara fyrir kröfuhafa að komast í eignina og erfiðara fyrir fólk að halda sparnaði frá kröfuhöfum.

Ég ætla ekki að hafa um þetta fleiri orð en held að ég hafi nokkurn veginn tæpt á því sem ég vildi segja um þessa tillögu í umræðunni.