143. löggjafarþing — 109. fundur,  13. maí 2014.

séreignarsparnaður og ráðstöfun hans til greiðslu húsnæðislána og húsnæðissparnaðar.

484. mál
[15:30]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (P) (um fundarstjórn):

Forseti. Ég hef setið á öllum fundum þar sem við höfum rætt um samkomulag um þinglok. Það er alveg ljóst að það er samkomulag um að hér ætluðum við að fá að ræða aðeins um þetta stóra mál. Á síðasta kjörtímabili hefði heyrst eitthvað í þeim sem nú eru í meiri hluta ef við hefðum til dæmis ekki fengið að ræða um Icesave.

Mér finnst ekki til fyrirmyndar það hugarfar sem hefur brotist út, sér í lagi frá Framsóknarflokknum, í fjölmiðlum og hér í þingsal, um að við séum annaðhvort í málþófi eða nennum ekki að vinna vinnuna okkar í sumar.

Til að greiða fyrir störfum þingsins óska ég eftir því að þeir þingmenn Framsóknarflokksins sem hér núa okkur um nasir sjálfsögðum rétti til þess að tjá okkur um jafn mikilvæg mál hreinlega biðjist afsökunar á ummælum sínum.