143. löggjafarþing — 109. fundur,  13. maí 2014.

séreignarsparnaður og ráðstöfun hans til greiðslu húsnæðislána og húsnæðissparnaðar.

484. mál
[20:01]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Ég þakka þá ágætu umræðu sem hefur farið fram hér í dag um þetta þingmál. Ég hef áður í orðaskiptum við hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra lýst helstu ágöllunum sem ég hef séð á málinu. Þær athugasemdir sem ég vil gera við þetta mál eru fyrst og fremst af tvennum toga.

Annars vegar er hér verið að veita fólki skattafslátt. Hann er veittur hlutfallslega eftir tekjum þannig að þeir sem hærri hafa tekjurnar fá meiri skattafslátt en þeir sem hafa lægri tekjur. Það er í raun og veru velferðarkerfi á haus þar sem ríkissjóður veitir meiri skattafslátt til þeirra sem hafa hærri tekjur en minni til hinna sem hafa lægri tekjur. Yfirleitt reynum við í bótakerfum, með skattafsláttum og öðru þess háttar að haga því með öfugum hætti svo að fleiri krónur renni til þeirra sem hafa lágar tekjur en færri til hinna sem hafa háar tekjur. Þetta liggur út af fyrir sig fyrir og þarf ekki að orðlengja um.

Hitt atriðið sem ég geri athugasemdir við er að tugir þúsunda Íslendinga eru útilokaðir frá því að njóta þessa skattafsláttar. Það er auðvitað freklega ósanngjarnt. Það er fólk sem er á fjárhagsframfæri sveitarfélaganna, það er fólk sem er atvinnulaust, það eru ellilífeyrisþegar og það eru öryrkjar. Nú eru þessir hópar vissulega allir með fremur lágar tekjur en ef fólk með lágar tekjur treystir sér til að spara nokkur prósent af tekjum sínum í hverjum mánuði og borga inn á húsnæðislánin sín með þeim skattafslætti sem verið er að bjóða, af hverju má það ekki gera það? Af hverju mega allir launamenn á almennum vinnumarkaði spara þannig, allir launamenn hjá hinu opinbera spara þannig en efnaminnsta fólkinu, sem helst þarf á skattafslætti að halda til að geta staðið í skilum með húsnæðislánin sín, er bannað það? Öryrkinn má einfaldlega ekki leggja hluta af örorkulífeyri sínum inn á húsnæðislánin sín með þeim skattafslætti sem allir aðrir þjóðfélagshópar fá. Sama á við um ellilífeyrisþegana. Sama á við um hinn atvinnulausa og sama á við um þann sem á engan rétt í neinum af þessum kerfum og er þess vegna á strípuðum fjárhagsbótum sveitarfélaga. Þetta er mikið ranglætismál og gerir að verkum að það er engin leið að styðja málið þó að það sé út af fyrir sig ívilnandi gagnvart þeim sem njóta þess. Það er auðvitað fáránlegt að hv. þm. Willum Þór Þórsson skuli fá hundruð þúsunda í skattafslátt úr ríkissjóði en fólki sem er á örorku- og ellilífeyri sé neitað um sams konar skattafslátt, ekki einu sinni í hlutfalli af tekjum sínum sem eru þó miklu færri krónur en hver alþingismaður mun fá úr þessum ívilnunargjörningi.

Ég geri sem fyrr alvarlegar athugasemdir við það að þær réttlætishugmyndir alþingismanna séu þannig að þeir sjálfir, þó að þeir hafi ekki sérstakt mótframlag, fái að spara skattfrjálst af sínum ágætu launum en þeir sem eru á lægstu laununum í landinu eigi ekki að fá að borga inn á húsnæðislánin sín með skattafslætti heldur skuli þeir fyrst borga 40% í tekjuskatt og svo megi fjárhæðin ganga inn á útgreidd laun þeirra og eiga þeir þó talsvert erfiðara með að standa í skilum með lánin með þau lágu laun sem þeir hafa en hv. þingmenn.