143. löggjafarþing — 109. fundur,  13. maí 2014.

séreignarsparnaður og ráðstöfun hans til greiðslu húsnæðislána og húsnæðissparnaðar.

484. mál
[20:17]
Horfa

Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Willum Þór Þórsson) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Árna Þór Sigurðssyni fyrir andsvarið.

Sú aðgerð sem við erum að ræða, þetta frumvarp, beinist sannarlega að fólki og að þeim hópi sem hefur tök á því, eins og margoft hefur komið fram hér í ræðu, að spara í séreign og nýta þá séreign og skattafslátt af því sem hvata til að ná niður höfuðstól húsnæðisskulda. Svo var þetta útfært enn frekar til þess að ná til stærri hóps, yngra fólks og leigjenda, þeirra sem hafa tök á því að afla sér eigin fjár til fjárfestingar í húsnæði fram í tímann. Það var mín meining og er í takt við það að fólkið sé í forgangi.

Bent hefur verið á það í umræðunni að ríki og sveitarfélög fari á mis við tekjur, okkar sameiginlegu sjóðir, þannig að við tökum sameiginlega þátt í því að fólkið sé í forgangi og fjölskyldur með heimili og við hjálpum til við að ná niður húsnæðisskuldum. Það var meiningin á bak við mín orð.