143. löggjafarþing — 109. fundur,  13. maí 2014.

leiðrétting verðtryggðra fasteignaveðlána.

485. mál
[20:59]
Horfa

Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Frosti Sigurjónsson) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þessa spurningu, þetta er góð spurning. Við veltum þessu fyrir okkur og nefndin hafði úr að spila ansi góðum greiningum, bæði frá Analytica og frá Seðlabankanum. Áhrifin eru tiltölulega mild í báðum þessum greiningum. Ef maður hefur í huga heildaraðgerðina á þessu ári, 20 milljarða, og setur það í samhengi við heildarfjárlögin, þá eru það rúm 3% af heildarfjárlögunum, 20 milljarðar. Það er svo lítil tala að erfitt er að sjá fyrir sér að það geti valdið miklum óstöðugleika eða mjög stórum sveiflum, hvort sem er í verðbólgu eða öðru.

Við verðum líka að hafa í huga að ekki er verið að útdeila peningum til fólks heldur er verið að lækka höfuðstól skulda þess. Það er því mjög erfitt að sjá fyrir sér að þetta hafi neikvæðar afleiðingar. Eina leiðin til þess að fólk fái mikið laust fé út úr þessari aðgerð væri að það mundi skuldsetja sig aftur, að það mundi nota veðrýmið sem mundi myndast, sem reyndar losnar ekki fyrr en eftir fjögur ár að fullu. En ef það mundi vilja að fara að nýta þetta veðrými þyrfti það að taka aukin lán og setja peningana þannig í umferð og auka eftirspurn. En þá væri til dæmis hægt að fara út í mótvægisaðgerðir. Nú er veðsetningarhlutfallið til dæmis 80%, viðmiðið þegar verið er að reikna út eiginfjárhlutfall bankanna og slíkt, þeir lenda í kostnaði ef þeir lána mikið meira en það. Hægt væri að lækka það niður í 75% eða eitthvað slíkt í einhverjum skrefum til að vega upp á móti þannig að verð flæði ekki út í samfélagið. Það væri því hægt að gera og væri miklu ódýrari leið en að fara að hækka vexti.