143. löggjafarþing — 110. fundur,  14. maí 2014.

séreignarsparnaður og ráðstöfun hans til greiðslu húsnæðislána og húsnæðissparnaðar.

484. mál
[09:41]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (P) (um atkvæðagreiðslu):

Forseti. Ég átta mig ekki alveg á því hvar á vogarskálunum þessi aðgerð liggur, hvort þetta sé jákvætt eða neikvætt skref. Á heildina litið gerir þetta ekki neitt fyrir suma hópa og er mjög gagnlegt fyrir aðra. Píratar munu því sitja hjá.

Ég held að margt í þeirri hugmyndafræði sem liggur þarna á bak við sé bara fínt. Ég hefði viljað fá lengri tíma til þess að vinna þetta á Alþingi og í samræmi við og samhangandi með aðgerðum fyrir þá sem munu ekki fá neina leið til þess að spara í þessum aðgerðum og sér í lagi hef ég áhyggjur af stöðu þeirra sem eru á leigumarkaði.

Við píratar munum ekki greiða atkvæði gegn þessu, en við munum sitja hjá.