143. löggjafarþing — 111. fundur,  14. maí 2014.

kortaupplýsingar.

465. mál
[11:47]
Horfa

umhverfis- og auðlindaráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegi forseti. Almennt um aðgengi almennings að landupplýsingum tek ég undir með hv. fyrirspyrjanda, og þakka umræðuna, að það sé frekar jákvætt, eða mjög jákvætt skulum við segja. Aðgengi að gögnum og upplýsingum hefur aukist verulega með tilkomu internetsins. Þegar netfyrirtækið Google hóf fyrir nokkrum árum að miðla kortum og landupplýsingum án gjaldtöku á vefnum varð hálfgerð sprenging í notkun þessara gagna. Stafræn landakort og aðrar opinberar landupplýsingar hafa í kjölfarið verið gerð aðgengileg án gjaldtöku víða um heim með góðum árangri sem er meðal annars mældur í stóraukinni notkun og nýsköpun á sviði upplýsingatækni, eins og hv. þingmaður kom inn á.

Í nýlegri erlendri rannsókn kemur fram að í þeim löndum þar sem opinber kortagögn og landupplýsingar eru án gjaldtöku er vöxtur fyrirtækja sem reiða sig á slík gögn 15% meiri en í þeim löndum þar sem gögnin eru seld. Þá hafa dönsk stjórnvöld bent á að ávinningurinn af því að gera opinber stafræn kort og landupplýsingar gjaldfrjáls sé margfaldur fyrir samfélagið en það birtist meðal annars í betri og meiri notkun á gögnunum og nýsköpun í atvinnulífinu.

Með lögum nr. 44/2011, um grunngerð fyrir stafrænar landupplýsingar, var innleidd hér á landi tilskipun Evrópusambandsins um notkun og miðlun landupplýsinga sem nefnist INSPIRE. Markmið INSPIRE er að samræma og samnýta opinberar landupplýsingar, aðallega í þágu umhverfismála. Eitt af lykilatriðum tilskipunarinnar er að gert verði átak við að skrá og gera opinberar landupplýsingar aðgengilegar á netinu til hagsbóta fyrir allt samfélagið. Þó að heimilt sé að taka vægt gjald fyrir stafrænar landupplýsingar samkvæmt tilskipuninni hefur tilkoma hennar stuðlað að því, ásamt fleiri þáttum, að opinberar landupplýsingar í Evrópu eru víða orðnar án gjaldtöku. Sjálfsagt spilar Google þar stærsta rullu. Landmælingar Íslands fara með framkvæmd áðurgreindra laga sem kallar meðal annars á mikla samvinnu á milli ríkisstofnana og sveitarfélaga. Í landupplýsingagátt sem Landmælingar Íslands hafa komið upp má finna mikinn fjölda landupplýsinga.

Til að mæta auknum kröfum um aðgengi gagna var ákveðið í samvinnu við Landmælingar Íslands að öll gögn í eigu stofnunarinnar yrðu gerð gjaldfrjáls, eins og hv. þingmaður kom inn á, og tók sú ákvörðun gildi 23. janúar 2013. Markmiðið með því að gera stafræn kort og landupplýsingar stofnunarinnar gjaldfrjáls var að tryggja öllum, almenningi og fyrirtækjum, stofnunum og sveitarfélögum, greiðan aðgang að upplýsingum um umhverfi og náttúru landsins og hvetja til aukinnar notkunar, úrvinnslu og miðlunar þessara gagna, til dæmis á sviði ferðaþjónustu, opinberrar stjórnsýslu sem og í menntakerfinu.

Frá því að gögn Landmælinga Íslands voru gerð gjaldfrjáls fyrir rúmlega ári hefur notendum svokallaðra vektorgagna fjölgað mjög mikið, þ.e. úr um 100 í um 2.600, auk þess sem aðsókn í önnur gögn stofnunarinnar hefur stóraukist með aukinni umferð um vef stofnunarinnar. Notendur sækja gögnin á heimasíðu stofnunarinnar og eru þau notuð í mismunandi verkefni, allt frá kortagerð til gerðar smáforrita. Þá hefur einnig verið mikil aðsókn í gömul kort og loftmyndir, eins og menn þekkja.

Eftirfarandi eru helstu tölur um umfang notkunar stafrænna kortagagna Landmælinga Íslands fyrir tímabilið 23. janúar 2013 til 26. mars 2014, í 14 mánuði:

Skráður fjöldi notenda: 2661.

Fjöldi sóttra skráa: 11.710.

Meðalfjöldi skráa á hvern notanda: 4,4.

Magn í gígabætum: 2.586, þ.e. 2,5 terabæti.

Mörg dæmi mætti nefna um aukna og nýja notkun og er fyrirhugað að gera könnun á næstunni til að fá yfirsýn yfir það í hvers konar verkefnum gögnin nýtast. Ljóst er í það minnsta að með því að gera gögnin gjaldfrjáls er aukinn hvati til nýsköpunar á þessu sviði, eins og er á mörgum öðrum sviðum einnig þar sem eru upplýsingar sem almenningur hefur aðgang að.