143. löggjafarþing — 111. fundur,  14. maí 2014.

móðurmálskennsla.

573. mál
[12:34]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Illugi Gunnarsson) (S):

Virðulegi forseti. Okkur er sá vandi á höndum að það er útilokað að við getum tryggt að boðið sé upp á kennslu í öllum þeim tungumálum sem hér er um að ræða. Þeir sem hingað koma hafa mjög fjölbreyttan bakgrunn hvað varðar heimilisfesti þannig að skólakerfið mun aldrei ná utan um það. Eins og kom réttilega fram hjá fyrirspyrjanda, hv. þingmanni, er mjög mikilvægt, og á það lagði ég áherslu í svari mínu, að til sé rammi í lögum um skólakerfið sem veiti þessa möguleika og m.a. sé metið það nám sem snýr að móðurmálinu.

Ég er síðan algerlega sammála hv. þingmanni um mikilvægi þessa. Þetta er það stór hópur að það skiptir máli hvernig við stöndum að þessu. Það er alveg rétt sem hv. þingmaður segir um tvítyngi, þótt ég hafi auðvitað takmarkað vit á því, og námsmöguleika og hvernig nemendur eru í stakk búnir til þess að stunda nám þegar kemur að mati á þeim þáttum, ég held að allt bendi til þess að full færni í móðurmáli sé algjört grundvallaratriði. Þess vegna þarf skólakerfið að vera lipurt og vera tilbúið til þess að teygja sig, með skynsamlegum hætti þó, til að sem flestir geti náð slíkri færni. Ég legg þó á það áherslu að útilokað er að við getum tryggt það til allra alltaf, við erum ekki í færum til þess. En við erum í færum til þess að hafa kerfið sveigjanlegt og opið hvað þetta varðar.

Síðan tek ég undir með hv. þingmanni að það er auðvitað fráleitt að það sé lagt þannig upp að nemendum sé bannað að nota móðurmál sitt innan veggja skólans við einhverjar aðstæður. Ég held að það hljóti að segja sig sjálft.