143. löggjafarþing — 113. fundur,  14. maí 2014.

frestun verkfallsaðgerða Félags íslenskra atvinnuflugmanna gegn Icelandair.

600. mál
[23:34]
Horfa

innanríkisráðherra (Hanna Birna Kristjánsdóttir) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég ætla ekki að lengja umræðurnar mikið. Ég tek undir það með hv. þingmanni að umhverfið í kringum þetta er eilítið óskýrt og kannski er það í þessu eins og í svo mörgu öðru að stundum blasir það bara við manni að engin önnur lausn er fær.

Við getum alveg rætt það á breiðari grundvelli hvort ástæða sé til að breyta lagaumgjörðinni kringum þetta. Ég nefndi hér áðan að ég tel fulla ástæðu til þess, sérstaklega með hliðsjón af hlutverki, stöðu og heimildum ríkissáttasemjara.

Ég hef hins vegar ítrekað nefnt það og tel það mikilvægt vegna umræðunnar sem hér var minnst á að gengur í samfélaginu, um það sem almennt hefur verið sagt um þessa deilu, að ég felli enga dóma um launakjör þessara stétta, stöðu þeirra, aðbúnað gagnvart fyrirtækjum eða neitt slíkt. Ég ætla mér ekki að fella slíka dóma. Það eina sem ég hef sagt og ítreka er að ég harma innilega að til þess þurfi að koma að við þurfum að blanda okkur í málið.

Ég tek undir það með hv. þingmanni að umgjörðin er fremur óskýr og hún er matskennd. En löggjöfin er með þeim hætti að þegar við teljum, löggjafinn, að almannahagsmunir krefjist inngrips þá er það dálítið í okkar höndum. Ég vona þess vegna að nefndin fari vandlega yfir það að meta hvenær almannahagsmunir eru taldir það ríkir. Í þessu tilviki metur ríkisstjórnin það þannig og nú fer málið í efnislega meðferð í þingnefndinni.