143. löggjafarþing — 115. fundur,  15. maí 2014.

frestun verkfallsaðgerða Félags íslenskra atvinnuflugmanna gegn Icelandair.

600. mál
[13:26]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Í málefnalegu tómarúmi væri auðveldara að taka ákvörðun um þetta mál vegna þess að hér eru vel mögulega ríkir almannahagsmunir í húfi. Löggjafinn má ekki grípa inn í verkfallsréttinn nema ríkir almannahagsmunir séu í húfi og svo kemur það til okkar kasta að ákveða hvenær svo er og hér getur vel verið að svo sé.

Mér er það ekki enn þá ljóst sjálfum eftir þessa stuttu umræðu sem við höfum haft og tiltölulega lítið af upplýsingum hefur ratað til mín, alla vega hingað til.

Vandinn sem ég stend frammi fyrir hér er Herjólfslögin, lögin sem sett voru á verkfall starfsmanna Herjólfs á sínum tíma. Herjólfslögin lækkuðu þröskuldinn eins og bent var á.

Icelandair hlýtur að hafa séð það þótt þingmenn loki augunum fyrir því. Vandinn er sá að Herjólfslögin gætu rétt eins borið ábyrgð á þeirri stöðu sem við erum í nú. Afstaða Icelandair gagnvart starfsmönnum sínum getur vel verið bein afleiðing af setningu Herjólfslaga. Það er það sem gerir þetta mál erfitt. Það er ekki hægt að horfa á hvert mál fyrir sig, þetta er allt í einu samhengi. Jafnvel þótt við sjáum ekki samhengið sér Icelandair það alveg. Þar er vandinn.

Ég tók eftir því að í nefndaráliti minni hlutans kemur fram að ríkissáttasemjari hafi ekki komið fram með miðlunartillögu. Mér finnst að þegar við erum að ræða stjórnarskrárvarin réttindi hljótum við að þurfa að fullreyna allar aðrar leiðir áður en við förum í það að brjóta á þeim réttindi. Stundum þarf að brjóta á þeim ef til dæmis ríkir almannahagsmunir eru í húfi. Mér finnst að við þurfum að fullreyna hinar aðferðirnar.

Ég áskil mér fullan rétt til að skipta um skoðun þegar kemur að niðurstöðu í þessu máli en mér finnst í raun og veru ein tiltekin klausa í minnihlutaálitinu segja allt sem segja þar, með leyfi forseta:

„Ef viðsemjendur eru farnir að líta á lagasetningu á verkfallsaðgerðir sem eðlilegt inngrip er hætt við því að litlir hvatar séu til að ná samningum með hefðbundnum hætti. Það er hið alvarlega í málinu nú. Það er ekki hægt að láta lagasetningu á verkföll, trekk í trekk, koma í stað kjaramálastefnu af hálfu stjórnvalda.“

Það er það sem gerir málið erfitt í mínum huga.

Ég sé samt þessa ríku almannahagsmuni, eða tel mig sjá þá, en það er ekki hægt að líta á þetta mál eins og það sé einstakt. Það er ekki einstakt og það er ekki eitt og sér. Það er í samhengi.