143. löggjafarþing — 116. fundur,  15. maí 2014.

leiðrétting verðtryggðra fasteignaveðlána.

485. mál
[15:40]
Horfa

Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Frosti Sigurjónsson) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir málefnalegt innlegg og tillögur. Ég hjó eftir því að hv. þingmaður ræddi um neikvæð efnahagsleg áhrif sem fram hefðu komið í tali gesta fyrir efnahags- og viðskiptanefnd í morgun. Ég var aðeins hugsi yfir því. Mér finnst töluvert mikið gert úr þessum neikvæðu efnahagslegu áhrifum af leiðréttingunni. Við vitum að þetta eru 20 milljarðar á ári, veðrými sem opnast hjá þessum hópi. Það eru 3% af fjárlögum hvers árs, það er ekki stór tala til að hafa áhyggjur af.

Það kom einnig til tals á fundinum, nú vona ég að hv. þingmaður heyri til mín þó að hann sé ekki í salnum, (Gripið fram í: Já.) að auðsáhrifin væru líka mikilvæg og jafnvel mikilvægari. Talað var um að þau væru 5% af þeirri eignaaukningu sem verður. Ef hrein eign þessara heimila batnar um 80 milljarða þá verði auðsáhrifin 4 milljarðar sem geti runnið út í aukningu á einkaneyslu. Ef hún dreifist á fjögur ár er það 1 milljarður á ári. Er hv. þingmanni kunnugt um að einkaneysla á ári hér á Íslandi er 1 þús. milljarðar? Þetta er 0,1% aukning á einkaneyslu. Er ástæða til að hafa miklar eða ríkar áhyggjur af þessu? Hvað segir hv. þingmaður um það?