143. löggjafarþing — 116. fundur,  15. maí 2014.

leiðrétting verðtryggðra fasteignaveðlána.

485. mál
[16:52]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Þá kannski aftur að þessu síðasta með áhrifin á ríkissjóð. Nú kann vel að vera að erfitt sé að svara því nánast „på stående fod“, eins og maður segir, hver hin efnahagslegu eða fjárhagslegu áhrif á ríkissjóð verði. En miðað við það að þingmaðurinn hefur sett sig vel inn í þetta mál og fór vel yfir sjónarmið sín í því finnst mér ólíklegt annað en að hann hafi gert sér að einhverju leyti í hugarlund hver áhrifin verði, hvort þau verði veruleg eða óveruleg í stærðarsamhengi ríkissjóðs. Ég vil gjarnan hvetja hann og biðja hann um að eyða nokkrum orðum að þessu atriði.

Annað atriði sem ég vildi nefna tengist því að hv. þingmaður talaði aðeins um forsendubrestinn sem svo er kallaður, að allir hefðu orðið fyrir ákveðnum forsendubresti. Er hv. þingmaður sammála því að í frumvarpinu vanti í raun skilgreiningu á forsendubrestinum, hver hann raunverulega er? Hvort hann telji að í frumvarpinu, ef efni þess er borið saman við skýrslu sérfræðingahópsins sem það byggir á, ef farið er úr vinnu sérfræðingahópsins og yfir í frumvarpið, hafi í raun og veru verið vikið frá þeim ramma sem settur var utan um hugtakið forsendubrestur. Þetta sé þá talsvert á floti eins og það birtist í frumvarpinu sem núna er til umfjöllunar.