143. löggjafarþing — 116. fundur,  15. maí 2014.

leiðrétting verðtryggðra fasteignaveðlána.

485. mál
[20:12]
Horfa

Frsm. 3. minni hluta efh.- og viðskn. (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Vissulega hefur okkur miðað í rétta átt. Hér hefur verið samfelldur efnahagsbati frá því í lok árs 2010 þegar hagkerfið sneri úr samdrætti yfir í vöxt. Við eigum einhverja hlutdeild í honum, a.m.k. fleiri en núverandi hæstv. ríkisstjórn, mögulega. Það hefur líka verið bent á það af greiningaraðilum. Greiningardeildir bankanna eru sammála Seðlabankanum og fleiri aðilum um að slakinn svokallaður í þjóðarbúskapnum sé um það bil að vinnast upp. Þá verður mjög athyglisverð breyting, jákvæð í sjálfu sér en um leið þýðir hún að menn þurfa að vera á varðbergi við hagstjórn í landinu. Það er núverandi ríkisstjórn ekki. Það er meðal annars af þeim ástæðum sem menn gefa sér meiri verðbólgu, hærri stýrivexti og aukin viðskiptahalla strax á næsta ári. Menn gefa sér það almennt í greiningu á þessu ástandi og það er í umsögn Seðlabankans.

Sporin hræða líka dálítið í þessum efnum. Á árunum 2003 og 2004 voru veikburða varnaðarorð mælt, m.a. af Seðlabankanum og nokkrum fleiri aðilum, sem var ekkert gert með. Menn vöruðu við því að hækka veðsetningarhlutfall fasteignalána. Menn vöruðu við því að lækka skatta á sama tíma og gríðarlegar stóriðjufjárfestingar dældust inn í hagkerfið. Menn gerðu ekkert með þessi varnaðarorð. Vitum við hv. þingmenn ekki hvernig það fór?

Ég tel að það sé ekki hægt að afgreiða þetta mál eins auðveldlega og hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra gerir hér. Mér finnst menn mjög værukærir, svo að ég segi ekki kærulausir, gagnvart þeim varnaðarorðum sem núna eru uppi og gagnvart þeirri staðreynd að verulegir neikvæðir þjóðhagslegir frádráttarliðir munu rýra það jákvæða sem menn telja sig þó sjá við þessa aðgerð. Aukin verðbólga um 1–1,5% á árabili er fljót að éta upp það sem ætti helst að vera ávinningurinn, þ.e. minni skuldir heimilanna í landinu. Það er bara þannig. Og 0,5–1% vaxtastig í mörg missiri (Forseti hringir.) kostar ríkissjóð milljarða, atvinnulífið milljarða og heimilin milljarða. Það verður okkur ekki til framdráttar.