143. löggjafarþing — 117. fundur,  15. maí 2014.

veiðigjöld.

568. mál
[22:46]
Horfa

Björt Ólafsdóttir (Bf):

Virðulegi forseti. Við fjöllum hér um frumvarp til laga um breytingu á lögum um veiðigjöld til eins árs. Það liggur fyrir að stjórnarflokkarnir hafa í hyggju frekari breytingar á stjórn fiskveiða eftir það tímabil. Í fyrirliggjandi frumvarpi höfum við verið að vinna með veiðigjöld eins og þau hafa verið að þróast, fyrst í formi almenns gjalds en svo með viðbættu sérstöku veiðigjaldi sem var hugsað þannig að það væri partur af svokölluðum umframhagnaði fyrirtækja í sjávarútvegi. Þetta er í hnotskurn hugmyndafræðin um auðlindarentuna. Sjávarútvegsfyrirtæki notast við auðlind sem er sameign þjóðarinnar, auðlind sem er takmörkuð og þarf að stýra aðgengi að. Í ljósi þess réttar að fá aflahlutdeild í fiskinum skulu þau fyrirtæki sem fá hlutdeild skila til baka til þjóðarinnar rentu af umframhagnaðinum. Þetta er, held ég, að flestra mati góð hugsun, hljómar a.m.k. réttlátt og sanngjarnt. Við vitum samt, og það eru líka held ég flestir sammála um, að það hvernig veiðigjöldin hafa verið reiknuð út og lögð á hin fjölbreyttu fyrirtæki í sjávarútvegi hefur því miður oft og tíðum reynst gallað. Þá er ég að tala um þorskígildin sem við höfum stuðst við.

Stjórnvöld hafa ekkert verið feimin við þetta. Þau hafa á hverjum tíma viðurkennt þetta. Fólk hefur smátt og smátt verið að finna út úr því hvernig hugmyndafræðin um auðlindarentu geti gengið sem best í framkvæmd. Aðalvandamálið er að við höfum alltaf, og erum enn þann dag í dag með því frumvarpi sem við tölum um núna, að vinna með of gömul gögn. Þau gögn sem nú liggja til grundvallar eru frá 2012. Það gengur ekki. Hvernig eigum við að reikna hugsanlegan umframhagnað einhvers fyrirtækis með því að spá fyrir um hagnaðinn út frá tveggja ára gömlum gögnum? Til þess að geta gert okkur í hugarlund afkomu fyrirtækja í sjávarútvegi, sem á að vera forsenda fyrir gjaldinu sem við ætlum að rukka þau um, þarf að taka tillit til ótal þátta sem eru breytilegir, ekki bara á ári hverju heldur oft á milli mánaða.

Í fyrsta lagi þarf að fara eftir leiðsögn Hafrannsóknastofnunar hverju sinni um hvað megi fiska. Í áætlunum okkar verða svo að vera einhver skekkjumörk því að við getum ekki verið viss um að allt sem má fiska muni á endanum koma í trollið eða á línurnar. Svo þarf að taka tillit til þess hvað kostar að sækja mismunandi tegundir ef við viljum ná í bita af umframhagnaðinum, þ.e. ef það er markmiðið. Þá verðum við að vita hvað kostar að sækja mismunandi afla. Það er sannarlega mjög mismunandi. Suman afla er spurning hvort borgi sig yfir höfuð að sækja. Ég viðurkenni það fúslega að fyrst þegar ég kom að þessum málum var mér alls ekki morgunljóst af hverju það skipti endilega máli að veita hvata til þess að útgerðarfólk færi og sækti einhverjar tegundir sem væru lengst úti í hafi ef þær veittu litla sem enga framlegð og gæfu lítinn sem engan hlut í sameiginlega sjóði. Málið er auðvitað ekki svo einfalt eins og við vitum með þetta kerfi og öll þau mál sem hér eru undir. Sem dæmi í þessu samhengi nefni ég kolmunna sem við sækjum næstum því alla leið til Færeyja. Það kostar mikið, en það er samt sem áður mikilvægt að við gerum það til þess að viðhalda veiðirétti á þeim slóðum.

Svo þarf að koma inn í heildarútreikningana alla þegar við ákveðum veiðigjöld að það er mismunandi hvað markaðurinn borgar fyrir hverja tegund fyrir sig. Það kemur því inn í stóra reikningsdæmið. Ég gæti haldið áfram með þessa upptalningu. Breyturnar eru margar og mismunandi. Það sem við stöndum frammi fyrir er svo sannarlega flókið verk. Við erum að leitast eftir álagningu gjalda út frá sönnum forsendum. Það er það sem við erum vonandi öll að pæla í og erum að gera. Ég trúi því.

Það liggur ljóst fyrir að þegar veiðigjöldin voru lögð á var ekki tekið nægilegt tillit til allra þeirra þátta sem ég nefndi hérna áðan. Þorskígildin svokölluðu voru ekki byggð á nægilega gegnsæjum og skýrum forsendum til vinna út frá. Mér finnst það persónulega alls ekki skrýtið því að sjávarútvegurinn getur ekki gefið allar forsendur fyrir fram. Eftir því sem ég hugsa meira um þetta finnst mér í raun frekar útópískt að ætla að tiltaka allar breytur sem undir eru í sjávarútvegi, sem eru yfirleitt á ferð og flugi, og finna út fyrir fram, því að gjaldið er lagt á fyrir fram, umframhagnað af auðlindarentu fyrirtækjanna. Ekki nóg með það heldur eru spárnar alltaf byggðar á nokkurra ára gömlum gögnum frá Hagstofunni. Þau gögn hafa tiltekin meðaltöl. Ég fæ þetta einfaldlega ekki til að ganga upp í kollinum á mér. Ég viðurkenni það fúslega.

Ég ætla að fara aðeins yfir þetta því að þessi mál eru ekki einföld. Eins og ég segi hefur tekið mig tíma að kafa ofan í þau. Væntanlega liggur þetta ekki ljóst fyrir öllum. Ég ætla því að taka tíma til að fara aðeins yfir breytingarnar núna og svo hvernig fyrirkomulagið var í lögunum áður til þess að stilla þessu tvennu svolítið upp.

Veiðigjöldin eftir gömlu hugmyndafræðinni, ef við megum segja sem svo, þ.e. eftir lögunum sem voru sett 2012, taka rentu af umframhagnaði sem er reiknaður beint af EBITDA sem er afgangurinn eftir alla venjulega rekstrarliði. Þá var líka stuðst við þorskígildi. Ég hef farið hér aðeins yfir af hverju sú aðferðafræði var gölluð, en sannarlega var ásetningurinn góður í þeirri vegferð allri. Það var ekki alveg ljóst hvað hver tegund gaf af sér sem var þó forsendan fyrir gjaldinu. Tölur sem stuðst var við voru gamlar og enn fremur var gjaldið ákvarðað út frá meðaltali af þessum gömlu tölum frá fyrirtækjunum. Þannig að — og takið eftir — stærri fyrirtækin, sem hafa alla jafna haft betri afkomu vegna stærðarhagkvæmni og svo eru þau mörg bæði í veiðum og vinnslu o.s.frv., drógu þetta meðaltal upp sem gerði það erfiðara fyrir minni fyrirtækin að standa undir gjaldinu. Eins og ég hef farið yfir vitum við að fiskverð sveiflast til og miðin gefa misvel en samt sem áður átti alltaf að reyna að setja einhvern fasta á þetta.

Ég sé marga vankanta á því að finna út rentu með þessum hætti í sjávarútvegi, að svo komnu máli alla vega. Þessi leið er hins vegar mjög góð fyrir aðrar auðlindir sem eru einsleitar, eins og olía og gas. Fiskurinn í sjónum er allt öðruvísi auðlind, fjölbreytt og útvegurinn sem nær í fiskinn er fjölbreyttur. Auðlindin er breytileg, oft ókunn og ótraust milli ára. Grunnforsenda þess að nota slíkar auðlindarentupælingar dugar vel fyrir ýmsar auðlindir, eins og olíu og gas eins og ég nefndi og kannski einhverja aðra orkugeira, en það er aðeins erfiðara fyrir sjávarútveginn.

Breytingin á veiðigjaldinu í þessu frumvarpi er fyrst og fremst sú að við miðum við nýja stuðla, svokallaða afkomustuðla. Þeir eru reiknaðir af fremsta megni eftir afkomu hverrar tegundar fyrir sig því að tilkostnaður og framlegð er auðvitað mismunandi eftir tegundum. Þetta er skref í rétta átt, en enn erum við með gamlar tölur og gögn sem er vandamál. Annað er að gjaldið til ríkisins er ákveðið fyrir fram eftir því sem vantar í kassann en ekki eftir á með tillit til afkomu og einmitt afkomustuðlanna sem við fengum fólk til að reikna í heilt ár. Mér finnst þetta í rauninni frekar kaldhæðnislegt og mjög mótsagnarkennt. Ég spyr mig: Til hvers er verið að reyna að finna út hvað útgerðin getur í raun borgað ef á svo ekki að notast við þann stuðul eða bæta á ofan á hann í einhverjum tilfellum?

Afkomustuðlarnir voru reiknaðir út af Hagfræðistofnun Háskóla Íslands og veiðigjaldsnefndinni svokölluðu sem er ópólitísk og hefur starfað lengi. Sú nefnd var líka við störf hjá fyrri ríkisstjórn. Núna er veiðigjaldið þannig að 5 milljarðar eru almennt gjald. Það fer í rekstur Hafrannsóknastofnunar, Fiskistofu, Landhelgisgæslunnar o.s.frv. Það er frekar óumdeilt. Ég held hins vegar að það sé of lágt. Við sjáum það t.d. af kröppum kjörum Hafrannsóknastofnunar eftir útdeilingu okkar á þingi til stofnunarinnar á síðustu fjárlögum. Svo er sérstaka veiðigjaldið, það var um 4,5 milljarðar síðast þegar ég vissi, en það eru komnar einhverjar tillögur um breytingar frá meiri hluta nefndarinnar. Þetta sérstaka gjald á að koma af þessum umtalaða umframhagnaði fyrirtækjanna. Svo eru afslættir vegna frítekjumarks og afslættir á sérstaka gjaldinu vegna skulda fyrirtækja og dragast þar með frá um 1,5 milljarðar. Samtals er áætlað að um 8 milljarðar fari í ríkissjóð.

Breytingin núna frá því sem áður var er að þessi dularfulli umframhagnaður er fundinn í rekstrarreikningum félaganna og reiknast út frá EBT, þ.e. hreinum hagnaði, sem sagt neðar í rekstarrreikningnum. Við notumst við þá stuðla sem veiðigjaldsnefndin og Hagfræðistofnun Háskóla Íslands hefur reiknað út fyrir okkur til þess að fá hlutfallið af því hvernig þessir 4,5 milljarðar í sérstaka gjaldinu skiptast á milli tegunda og heimildar í þeim. Svo er einhver reiknikúnst til að bæta í sem mest út af því að okkur vantar meira í kassann. Það er slétt þokkalega jafnt út að ég held eftir þessum afkomustuðlum.

Við fengum reyndar margar kvartanir frá gestum nefndarinnar um að það væri ekki hægt út frá frumvarpinu og því plaggi sem var dreift til almennings til umsagnar að reikna sig niður á þessar tekjutölur. Við vitum það náttúrlega að þetta frumvarp kom allt of seint inn í þingið og við þurftum að vinna af miklum hraða. Það má segja að margir gestir okkar hafi því miður komið fyrir kurteisissakir því að þeir fengu engan tíma til þess að rýna frumvarpið margir hverjir og áttu erfitt með að skilja forsendur því að þær voru ekki nógu skýrar í frumvarpstextanum. Það er miður. Ég vil þó taka fram að nefndarfundirnir sem voru haldnir voru mjög góðir og vinna nefndarinnar var góð svo langt sem hún náði, en betra hefði verið að hafa lengri tíma og betri gögn auðvitað.

Ég verð að segja, frú forseti, að ég á erfitt með að hafa yfirsýn yfir það sem felst í frumvarpinu. Ég get ekki svarað því hvort gjöldin séu sanngjörn, ég bara get það ekki. Ég hef ekki aðgang að öllum rekstrarreikningum fyrirtækja, en það eru samt þau sem við erum að fást við á nefndasviði Alþingis. Við erum að setja lög án þess að hafa nægar upplýsingar fyrir framan okkur. Það er grafalvarlegt mál. Ég bað um að fá að vita hvað hvert fyrirtæki borgar í veiðigjöld til að geta einfaldlega metið hvort gjöldin séu sanngjörn. Ráðuneyti og ráðherra urðu ekki við þeirri beiðni minni og reyndar annarra í nefndinni. Ég spyr mig því hvort okkur finnist það tækt að við í þessum sal setjum lög án þess að vita samhengi hlutanna. Mér líður ekki vel með það.

Að lokum, frú forseti, vil ég segja út frá því sem ég hef séð og hef rakið í ræðu minni að ég efast því miður um að aðferðafræðin við álagningu gjaldanna sé rétt leið þó svo að ég vilji taka fram að afkomustuðlarnir séu gott skref fram á við. Ég held að við séum að reyna að troða sjávarútvegi í eitthvert auðlindahagfræðibox með aðferðafræði sem passar því miður ekki út af því að það eru svo margar breytur sem eru tvist og bast um allt og verða það alltaf. Hugmyndafræðin er mjög falleg og aðlaðandi, en hún virðist ganga illa í framkvæmd. Við þurfum að finna leið til þess að ná í auðlindagjöld af sjávarútvegi sem enginn vafi leikur á að útgerðunum ber að borga í sameiginlega sjóði okkar allra, en við þurfum að gera það eftir réttum formerkjum og gögnum svo að við séum ekki úti á þekju og stillum þessu þannig upp að fyrst spyrjum við hvað okkur vantar og svo smyrjum við því bara einhvern veginn yfir.