143. löggjafarþing — 118. fundur,  16. maí 2014.

vísindarannsóknir á heilbrigðissviði.

159. mál
[10:05]
Horfa

Frsm. velfn. (Þórunn Egilsdóttir) (F):

Hæstv. forseti. Velferðarnefnd kom saman milli 2. og 3. umr. þar sem þau mistök urðu að breytingu, sem vikið er að í áliti nefndarinnar fyrir 2. umr., vantaði í breytingartillögu nefndarinnar. Hún felur í sér að við 34. gr. frumvarps til laga um vísindarannsóknir á heilbrigðissviði bætist sértæk reglugerðarheimild vegna reglna sem ráðherra mun setja um framkvæmd tilkynninga til þátttakenda í vísindarannsóknum um mikilvæga þætti sem fram koma við gerð rannsóknar og varða heilsu þátttakenda. Nefndin áréttar að við samningu reglnanna skuli haft samráð við vísindasiðanefnd, Persónuvernd og Siðfræðistofnun Háskóla Íslands.

Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með þeirri breytingu við frumvarp til laga um vísindarannsóknir á heilbrigðissviði sem reifuð hefur verið hér og lögð er til á sérstöku þingskjali.

Undir þetta rita auk þeirrar sem hér stendur Sigríður Ingibjörg Ingadóttir, Ásmundur Friðriksson, Guðbjartur Hannesson, Unnur Brá Konráðsdóttir, Björt Ólafsdóttir og Lilja Rafney Magnúsdóttir.