143. löggjafarþing — 118. fundur,  16. maí 2014.

leiðrétting verðtryggðra fasteignaveðlána.

485. mál
[13:38]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (Bf) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Við í Bjartri framtíð teljum þetta mál endurspegla afskaplega slæma hagstjórn. Þetta eykur að öllum líkindum neyslu og þar með viðskiptahalla á tímum sem við þurfum þess alls ekki. Þetta mál lýsir ótrúlega óábyrgri meðhöndlun opinberra fjármuna. Hér eru 80 milljarðar í húfi. Þá peninga væri hægt að nota til að greiða niður skuldir ríkissjóðs sem mundi skapa svigrúm fyrir komandi ár og komandi kynslóðir til að gera ýmislegt sem blasir við að er nauðsynlegt í samfélaginu. Það er mikil fjárþörf í innviðum samfélagsins. Þessir peningar verða ekki nýttir til að mæta þeirri fjárþörf.

Þetta er mjög óréttlátt. Þetta hjálpar ekki þeim Íslendingum sem eru í raunverulegum skuldavanda eða greiðsluvanda með skuldir sínar. Það gerir eiginlega alveg útslagið.

Við segjum því þvert nei við þessu frumvarpi. Við sitjum hjá um breytingartillögur, þær eru (Forseti hringir.) þó til bóta en breyta ekki þeirri afstöðu okkar að þetta er mjög óráðlegt og óskynsamlegt.