143. löggjafarþing — 118. fundur,  16. maí 2014.

leiðrétting verðtryggðra fasteignaveðlána.

485. mál
[13:59]
Horfa

forsætisráðherra (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (F) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegur forseti. Frá því að tillögurnar sem liggja til grundvallar þessari lagasetningu birtust fyrst hafa viðbrögð stjórnarandstöðunnar verið vægast sagt fálmkennd. Ýmist kostar þetta of mikið eða of lítið. Ýmist nær þetta til of margra eða of fárra.

Svo leiðast menn út í hrein ósannindi.

Það er ósatt að þetta gagnist sérstaklega efnameira fólki, öfugt við þær aðgerðir sem ráðist var í í tíð síðustu ríkisstjórnar. Það er ósatt að fjármagn flæði frá landsbyggðinni til höfuðborgarsvæðisins með þessum aðgerðum. Og það er algjörlega ósatt, þrátt fyrir að menn leyfi sér vitandi vits að halda því fram enn þá, að það hafi verið sérstakt markmið að þessar aðgerðir kostuðu 300 milljarða, að því meira sem þær kostuðu því betri væru þær.

Það sem er satt í þessu máli er að það er að öllu leyti, 100%, staðið við þau fyrirheit sem voru gefin í kosningunum, (Gripið fram í: Já?) kosningum sem snerust að mestu leyti og miklu leyti um þetta mál. Það er verið að leiðrétta fyrir öllum áhrifum ófyrirséðrar verðbólgu á árunum í kringum efnahagshrunið með þessum aðgerðum og koma til móts við hóp sem var vanræktur í fimm ár, (Forseti hringir.) hóp sem síðasta ríkisstjórn leit fram hjá og var svo einbeitt í því að hún var tilbúin að svíkja loforð sem hún gaf þegar (Forseti hringir.) minnihlutastjórninni var komið á. Hún var tilbúin að svíkja það formlega loforð (Forseti hringir.) til að ganga fram hjá þessum hópi. (Gripið fram í.)