143. löggjafarþing — 119. fundur,  16. maí 2014.

fiskvegur í Efra-Sog.

499. mál
[21:46]
Horfa

Frsm. atvinnuvn. (Jón Gunnarsson) (S):

Virðulegi forseti. Hér er komið fram ansi merkilegt mál sem varðar ísaldarurriðastofninn í Þingvallavatni, fjallar um að reyna að endurvekja og styrkja viðgang þessa stofns sem nú er farinn að láta að sér kveða, ef svo má að orði komast, með öflugum hætti í Þingvallavatni. Helstu hrygningarsvæði þessa stofns voru, eins og margir þekkja, í Efra-Sogi og í affalli Efra-Sogs úr Þingvallavatni.

Hér er hv. þm. Össur Skarphéðinsson að leggja fram þingsályktunartillögu sem fjallar um að gerður verði fiskivegur við stíflustæðið í Þingvallavatni við Steingrímsstöð til að greiða leið urriðans við Efra-Sog til að efla hrygningu þessa merkilega fiskstofns.

Nefndin aflaði sér álits á þessu hjá Landsvirkjun. Það kom í ljós að þessi mál hafa verið skoðuð þar. Það er í samræmi við samþykkt Þingvallanefndar frá árinu 2004 þar sem samstaða var um að fara í þessar framkvæmdir, að þetta mál yrði skoðað. Landsvirkjun er að vinna að því máli. Þessi þingsályktunartillaga styður við þá framkvæmd.

Vonandi sjáum við, að öllum skilyrðum uppfylltum, að þessar framkvæmdir geti farið af stað innan ekki svo langs tíma.