143. löggjafarþing — 123. fundur,  18. júní 2014.

frestun verkfallsaðgerða Flugvirkjafélags Íslands gegn Icelandair.

616. mál
[16:22]
Horfa

félags- og húsnæðismálaráðherra (Eygló Harðardóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég tel alltaf mjög jákvætt að reyna að hafa sem mest samráð, sérstaklega um svona stórar breytingar á því hvernig við viljum hafa rammann utan um vinnumarkaðinn. Ég vil líka taka það fram að ég tel aðila vinnumarkaðarins, sérstaklega ef við horfum til SA og ASÍ, hafa stigið mjög jákvæð skref í átt að norrænu verklagi, svo sem viðræðuáætlunum og að vinna sameiginlega gögn varðandi launaþróun. Ég held raunar að hægt sé að segja að áhugi sé á því hjá öllum þeim sem starfa á vinnumarkaðnum að reyna að komast úr þeim átakafarvegi sem hefur einkennt íslenskan vinnumarkað.

Við megum hins vegar ekki gleyma því að það eru líka átök í öðrum löndum. Það er líka þannig að þegar menn eru að reyna að breyta verklaginu er ekki þar með sagt að það gangi alltaf upp við fyrstu tilraun.

Ég vil nefna fleiri hluti sem mér finnst áhugavert að skoða, t.d. hvort ríkissáttasemjari eigi að halda utan um þá tölfræðivinnu sem snýr að launaþróun á vinnumarkaði og hvort við þurfum að tryggja sjálfstæði ríkissáttasemjara enn frekar gagnvart stjórnvöldum. Mér fannst líka áhugavert, þó að ég sé ekki að sækjast sérstaklega eftir því, sem kom fram í máli hv. þm. Árna Þórs Sigurðssonar en hann velti því upp hvort það væri rétt að einstaka fagráðherrar færu með þessi mál en ekki ráðherra sem fer með vinnumarkaðsmál. Sá ráðherra fer með þessi mál og er þar af leiðandi í miklum samskiptum við aðila vinnumarkaðarins og fær þá oft að finna fyrir því ef hlutirnir eru ekki í lagi.

Þetta segir okkur bara að við þurfum að endurskoða þessi mál í heild sinni.