143. löggjafarþing — 123. fundur,  18. júní 2014.

frestun verkfallsaðgerða Flugvirkjafélags Íslands gegn Icelandair.

616. mál
[16:49]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra kærlega fyrir að koma í andsvar og fyrir að veita þessa skýringu. Það skiptir mig miklu máli að heyra að af hálfu ráðherra vinnumarkaðsmála er ekki lagt upp með það sem fyrir fram gefið að ná einhverjum ákveðnum markmiðum og breytingum á lögum ef við setjumst niður og ræðum mögulegar lagabreytingar.

Ég ítreka það sem ég nefndi áðan í ræðu minni: Ég hef áhyggjur af lagasetningu í þrígang á þessi grundvallarréttindi á þremur mánuðum, vegna þess að mér finnst menn vera að skapa væntingar og andrúmsloft í samfélaginu um að ágreiningur á vinnumarkaði sé af hinu illa og að réttlætanlegt sé að grípa til ríkari aðgerða til þess að koma í veg fyrir slíkan ágreining um kaup og kjör. Ágreiningur um kaup og kjör er forsenda velsældar í landinu. Það er forsenda velsældar í landinu að launafólk fái að gera kröfur um verðlagningu vinnu sinnar og að fyrirtæki sem bera vel úr býtum þurfi að borga há laun.

Á sama hátt er það líka forsenda velsældar í landinu að samskipti á vinnumarkaði séu þannig að óábyrg verkalýðsfélög sem gera óábyrgar kröfur þurfi að standa og falla með kröfum sínum. Heilbrigðum samskiptum á vinnumarkaði er því enginn greiði gerður með endalausu inngripi löggjafans í kjaradeilur sem ekki leysast. Þvert á móti þurfum við að skapa svigrúm fyrir heilbrigð átök um kaup og kjör sem leiða til efnislegrar niðurstöðu við samningaborðið.