143. löggjafarþing — 124. fundur,  18. júní 2014.

frestun verkfallsaðgerða Flugvirkjafélags Íslands gegn Icelandair.

616. mál
[22:13]
Horfa

félags- og húsnæðismálaráðherra (Eygló Harðardóttir) (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég hef verið að óska eftir tilnefningum í starfshóp um mótun nýrrar vinnumarkaðsstefnu, þ.e. heildarstefnumörkun sem snýr að vinnumarkaðinum. Ég tel hins vegar rétt í framhaldi af þeirri umræðu sem orðið hefur í dag að ég hugi að því hvort rétt sé að skipa sérstakan hóp sem snúi þá að þessu.

Það hefur hins vegar ekki verið, eftir því sem ég hef kynnt mér, sérstaklega mikil eftirspurn eftir því að efla embætti ríkissáttasemjara hingað til. Það hefur ekki verið sérstaklega mikil eftirspurn eftir því að gera þær breytingar sem hér hafa verið ræddar. Aðilar vinnumarkaðarins komu sér saman um ákveðið verklag og fóru meðal annars sameiginlega í heimsókn til Svíþjóðar, að mér skilst, til að kynna sér hvernig menn hafa staðið að samningaviðræðum þar. Þeir nálguðust þetta, að því er mér fannst, mjög ábyrgt, þeir sem stóðu að því. Þeir lögðu áherslu á að kjarabætur felast ekki bara í prósentuhækkunum heldur í því að tryggja kaupmátt og efnahagslegan stöðugleika og lága verðbólgu hér innan lands.

Skoðanir hafa verið skiptar innan verkalýðshreyfingarinnar um þessa aðferðafræði. Ég held að nú í framhaldinu, þegar líður að því að stíga næsta skref — af því að hér voru gerðir aðfararsamningar — ættu menn að velta því fyrir sér hvernig þeir vilja hafa þessa hluti. Það þurfa allir að axla ábyrgðina á því að friður sé á vinnumarkaði, að við tryggjum raunverulegar kjarabætur og tryggjum aukinn kaupmátt. Það gerir ríkisstjórnin ekki ein en við erum svo sannarlega þátttakendur í því.